Íslenski boltinn

Ólafur Karl Finsen um ástandið í Val: Allt það besta í lífinu byrjar á krísu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Karl Finsen fagnar marki með Andra Adolphssyni,
Ólafur Karl Finsen fagnar marki með Andra Adolphssyni, Vísir/Vilhelm
Valsmenn sitja í neðsta sæti Pepsi Max deildar karla í fótbolta en einn af leikmönnum liðsins skrifaði stuttan pistil inn á Instagram þar sem hann talar um að það sé líka gott að vera í Val í krísu.

Valsliðið styrkti sig mikið fyrir tímabilið og bjuggust sumir við að þeir gætu hreinlega stungið af í sumar en annað hefur nú komið á daginn. Íslandsmeistarar Valsmanna eru í staðinn að bjóða upp á eina verstu titilvörn sögunnar.

Ólafur Karl Finsen var í „vandræðastöðu“ Valsmanna í síðasta leik og skoraði mark Íslandsmeistaranna í 2-1 tapi á móti Stjörnunni.

Valsmenn hafa nefnilega ekki náð að fylla í skarð danska framherjans Patrick Pedersen sem var markakóngur Pepsi deildarinnar í fyrra með 17 mörk í 21 leik.

Ólafur Jóhannesson hefur reynt að nota marga leikmenn upp á topp og nú síðast var Ólafur Karl kominn þangað en hann er vanur að spila fyrir aftan fremsta mann.

Ólafur Karl skoraði og var líka hársbreidd frá því að jafna leikinn í leikslok. Uppskeran var hins vegar fimmta tap Valsmanna í sjö leikjum.

„Dýrmætasta reynslan í lífi mínu eru erfiðleikar. Maður lærir og síar út fólk sem ekki er tilbúið að standa við bakið á manni þegar mest á reynir,“ skrifaði Ólafur Karl á Instagtam-síðu sína en hann hefur bæði orðið Íslandsmeistari með Stjörnunni og með Val.

„Allt það besta í lífinu byrjar á krísu. Þeir sem þola ekki erfiðleika njóta aldrei neinnar velgengni. Í Val er gott að vera. Líka í krísu,“ skrifaði Ólafur Karl.

Valsmenn hafa skorað samanlagt átta mörk í fyrstu sjö leikjum sínum og þeir Ólafur Karl Finsen og Gary Martin eru markahæstir með tvö mörk hvor.

Á sama tíma í fyrra var Valsliðið í 2. sæti með 12 stig og 11 mörk og árið þar á undan sat liðið í toppsætinu eftir sjö umferðir með 16 stig og 13 fráköst.

Hér fyrir neðan má sjá færslu Ólafs Karls Finsen.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×