Ólympíu- og heimsmeistarinn Caster Semenya fær að keppa í sinni aðalvegalengd, 800 metra hlaupi, án takmarkana eftir úrskurð hæstaréttar í Sviss í gær.
Alþjóðafrálsíþróttasambandið setti á nýjar reglur sem sögðu til um að keppendur í kvennaflokki í hlaupum frá 400 metrum upp í eina mílu mættu ekki fara yfir ákveðið magn af testósteróni í líkamanum. Þessar reglur þýddu að Semenya, sem er líffræðilega með hátt magn testósteróns, hefði þurft að taka inn bælandi lyf til þess að mega keppa áfram í 800 metra hlaupi.
Semenya áfrýjaði reglunum til Alþjóðaíþróttadómstólsins, CAS. Í byrjun maímánaðar hafnaði CAS hins vegar áfrýjun Semenya og reglurnar fengu að standa.
Íþróttadómstóllinn er staðsettur í Sviss og áfrýjaði Semenya niðurstöðu CAS til hæstaréttar í Sviss. Í gær opinberaði hæstiréttur niðurstöðu sína, sem var að reglurnar yrðu tímabundið ógildar.
Semenya getur því hlaupið í sinni aðalvegalengd án lyfja.
Málinu er hins vegar ekki lokið, var reglan aðeins gerð tímabundið ógild þar til frekari málsflutningur fer fram.
Semenya er tvöfaldur Ólympíumeistari og þrefaldur heimsmeistari í 800 metra hlaupi.
