Íslenski boltinn

Ekki vitað nákvæmlega hvað hrjáir Steven Lennon

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Skotanum hefur gengið erfiðlega að hrista af sér meiðslin en skilar góðu framlagi þær fáu mínútur sem hann getur spilað
Skotanum hefur gengið erfiðlega að hrista af sér meiðslin en skilar góðu framlagi þær fáu mínútur sem hann getur spilað vísir/vilhelm
Ólafur Kristjánsson segir FH-inga ekki vita nákvæmlega hvað það er sem hrjáir Steven Lennon, en hann hefur ekki byrjað leik með FH í sumar.

FH hefur skapað sér skemmtilega hefð þar sem þeir halda fréttamannafundi fyrir leiki sína í Pepsi Max deildinni þar sem Ólafur Kristjánsson situr fyrir svörum.

Fimleikafélagið á stórleik í dag gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli.

Eitt af því sem rætt var á fundinum í dag var ástand Steven Lennon, en Skotinn öflugi hefur verið að glíma við meiðsli og aðeins getað komið inn af bekknum þegar líða fer á leikina til þessa.

„Við höfum ekki alveg vitað hvað er að hrjá hann og þá hefur maður kannski farið aðeins varlega í mínúturnar sem hann fær,“ sagði FH.

„Við bindum vonir við það að þegar við komum aftur eftir þetta hálfs mánaðar hlé sem verður núna að hann verði miklu, miklu nær því að spila 90 mínútur. Við sjáum hvernig líkaminn bregst við eftir þessa leiki sem hann hefur verið að spila.“

Lennon hefur tekið þátt í þremur af sex leikjum FH í deildinni til þessa og skorað eitt mark. Hann gerði 9 mörk í 21 leik síðasta sumar.

„Auðvitað verður það frábært ef Lennon getur orðið 90 mínútna maður. Hann hefur verið virkilega drjúgur í þessum fáu mínútum sem hann hefur fengið. Við vitum það að ef hann er 90 mínútna maður þá verðum við enn sterkari,“ sagði Ólafur Kristjánsson.

Leikur Breiðabliks og FH hefst klukkan 17:00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×