Íslenski boltinn

Hólmfríður ætlar að spila eins lengi og líkaminn leyfir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fyrrverandi landsliðskonan og einn reynslumesti leikmaður í efstu deild kvenna í knattspyrnu, Hólmfríður Magnúsdóttir, hefur farið vel af stað í Pepsi Max deildinni í sumar.

Hún gekk í raðir Selfoss í upphafi tímabils og hefur smollið vel inn í ungt lið Selfoss sem nýtur góðs af mikilli reynslu Hólmfríðar en Hólmfríður hafði ekki spilað síðan 2017.

„Ég ætlaði mér ekki að koma til baka en svo einhvernveginn þegar það byrjaði að vora þá fór mig að kitla aftur. Á meðan líkamann leyfir mér þetta ætla ég að spila eins lengi og ég get,“ sagði Hólmfríður í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

„Ég þekki fólk og á skyldfólk frá Selfossi. Þetta er pínu heimaliðið mitt og það er gaman að enda þetta á Suðurlandinu þar sem ég er búsett.“

„Það hentar mjög vel að vera með einn lítinn og hafa stelpur í fjórða flokki að passa fyrir mig. Þetta smellur allt mjög vel saman,“ en Selfoss situr í sjötta sæti deildarinnar.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×