Íslenski boltinn

KR-ingar aðeins unnið einn deildarleik á Akranesi síðan 2007

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhannes Karl skoraði stórglæsilegt mark í sigri ÍA á KR, 3-2, á Akranesi sumarið 2012.
Jóhannes Karl skoraði stórglæsilegt mark í sigri ÍA á KR, 3-2, á Akranesi sumarið 2012.
ÍA og KR mætast á Norðurálsvellinum á Akranesi í 8. umferð Pepsi Max-deildar karla í dag. Sama hvernig fer er ljóst að annað liðið verður á toppi deildarinnar eftir leikinn.

ÍA er með 16 stig í 2. sæti deildarinnar, jafn mörg og topplið Breiðabliks. KR er í 3. sætinu með 14 stig.

KR hefur ekki átt góðu gengi að fagna á Akranesi á undanförnum árum. Frá 2007 hafa ÍA og KR sjö sinnum mæst í efstu deild á Akranesi. Skagamenn hafa unnið þrjá leiki, þrisvar sinnum hefur orðið jafntefli og KR-ingar unnið einn leik.

Eini sigur KR kom sumarið 2016. Mark danska framherjans Mortens Beck Andersen skildi liðin þá að.

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, skoraði stórglæsilegt mark með skoti beint úr aukaspyrnu í 3-2 sigri Skagamanna á KR-ingum 2012. Gary Martin skoraði sigurmark ÍA í leiknum en seinna um sumarið gekk hann í raðir KR.

Í tveimur þessara leikja, 2008 og 2013, voru Skagamenn fallnir. Leikurinn 2008 endaði með markalausu jafntefli og 2013 vann ÍA 3-1 sigur í leik sem fór fram í Akraneshöllinni.

Leikur ÍA og KR hefst klukkan 16:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 15:40.

Síðustu sjö deildarleikir ÍA og KR á Akranesi:

2007

ÍA 3-1 KR

2008

ÍA 0-0 KR

2012

ÍA 3-2 KR

2013

ÍA 3-1 KR

2015

ÍA 0-0 KR

2016

ÍA 0-1 KR

2017

ÍA 1-1 KR




Fleiri fréttir

Sjá meira


×