Bráðnun Grænlandsjökuls og hafíss á Norður-Íshafinu er við það að setja met. Hitinn á Grænlandi var meira en tuttugu gráðum yfir meðallagi á miðvikudag og við norðurströnd Alaska þar sem hafís tekur yfirleitt aldrei upp er opið haf.
Gögn Snjó- og ísgagnamiðstöðvar Bandaríkjanna benda til þess að umfangsmesta bráðnun Grænlandsjökuls svo snemma sumars frá því að mælingar hófust hafi átt sér stað í vikunni. Óvenjuleg hlýindi á austanverðu Grænlandi og inn á jöklinum hafa sett af stað bráðnun á um 45% íshellunnar, að því er segir í umfjöllun Washington Post.
Svo umfangsmikil bráðnun á sér yfirleitt ekki stað á Grænlandi fyrr en um mitt sumar og stundum ekki einu sinni þá.
Hlýindin má rekja til hæðarinnar sem hefur setið yfir Grænlandi undanfarið og hefur meðal annars valdið blíðviðri á Íslandi. Sjálfvirk veðurstöð uppi á jöklinum sýndi hita yfir frostmarki 12. júní. Það gerðist síðast í júlí árið 2012 þegar mesta bráðnun sem sést hefur á Grænlandi átti sér stað.
Bráðnun hafíssins er ennþá meiri. Útbreiðsla hafíssins á norðurskautinu hefur ekki mælst minni á þessum tíma árs frá því að gervihnattamælingar hófust árið 1979. Hop hafíssins í Tjúkta- og Beaufort-hafi við Norður-Alaska er sérstaklega sögð fordæmalaus.
Vorið hefur einnig verið óvenjuhlýtt víða á norðurslóðum. Þannig hófst bráðnun á Grænlandsjökli um mánuði fyrr en í meðalári og í Alaska losnuðu ár fyrr úr klakaböndum en nokkru sinni áður.
Erlent
Yfir tuttugu gráðum hlýrra en vanalega á Grænlandi og ís í lágmarki
Tengdar fréttir
Bráðnun hófst mánuði fyrr á Grænlandi eftir óvanaleg hlýindi
Óvenjuleg hlýindi hafa verið á Grænlandi. Á stuttum tíma hlýnaði um meira en tuttugu gráður og fór hitinn yfir frostmark.
Ár í Alaska aldrei losnað fyrr úr klakaböndum
Óvenjuleg hlýindi hafa verið í Alaska og hafís á Beringshafi hefur verið með minnsta móti.
Styrkur koltvísýrings ekki verið meiri í tíð mannkynsins
Styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hefur ekki verið hærri frá því áður en mannkynið kom til sögunnar, líklega ekki í þrjár milljónir ára.