Svíar létu fimm mörk duga gegn Tælendingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elin Rubensson og Fridolina Rolfo skoruðu báðar í dag.
Elin Rubensson og Fridolina Rolfo skoruðu báðar í dag. vísir/getty
Svíþjóð tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramóts kvenna með sigri á Tælandi, 5-1, í Nice í dag.

Svíar eru á toppi F-riðils með sex stig en Tælendingar á botninum án stiga og með markatöluna 1-18. Ekkert lið hefur fengið á sig fleiri mörk á einu og sama heimsmeistaramótinu og Tæland á enn eftir að leika einn leik í Frakklandi.

Það tók Svía aðeins sex mínútur að ná forystunni. Linda Sembrant skoraði þá með skalla eftir aukaspyrnu Elin Rubensson.

Á 19. mínútu skoraði Kosovare Asllani annað mark Svía og þremur mínútum fyrir hálfleik skoraði Fridolina Rolfo þriðja markið.

Staðan var 3-0 í hálfleik líkt og í leik Bandaríkjanna og Tælands sem bandarísku heimsmeistararnir unnu 13-0. Svíar buðu ekki upp á sömu markasúpu og þær bandarísku og létu tvö mörk duga í seinni hálfleik.

Á 81. mínútu skoraði Lina Hurtig fjórða mark Svíþjóðar. Í uppbótartíma minnkaði fyrirliði Tælands, Kanjana Sung-Ngoen, muninn í 4-1 og Tælendingar fögnuðu eins og þeir hefðu orðið heimsmeistarar.

Svíar áttu hins vegar síðasta orðið þegar Rubensson skoraði úr vítaspyrnu þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur 5-1, Svíþjóð í vil.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira