Erlent

Árásarmaðurinn í Christchurch segist saklaus

Kjartan Kjartansson skrifar
Árásamaðurinn í dómsal í mars.
Árásamaðurinn í dómsal í mars. Vísir/EPA
Ástralskur karlmaður sem er ákærður fyrir að hafa skotið 51 til bana og sært fjörutíu til viðbótar í Christchurch á Nýja-Sjálandi lýsti yfir sakleysi þegar mál hans var tekið fyrir í dag. Ekki verður réttað yfir manninum fyrr en á næsta ári.

Maðurinn neitaði sök af öllum ákæruliðum. Hann er ákærður fyrir 51 morð, 40 tilraunir til manndráps og hryðjuverk. Morðin framdi hann í tveimur moskum í nýsjálensku borginni á meðan föstudagsbænir stóðu yfir 15. mars. Þau eru þau verstu á friðartímum á Nýja-Sjálandi.

Dómarinn í málinu sagði að réttarhöldin hæfust 4. maí á næsta ári. Maðurinn verður í varðhaldi að minnsta kosti þar til mál hans verður tekið fyrir aftur um miðjan ágúst, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Honum er nú haldið í einangrun í hámarksöryggisfangelsi í Auckland.

Árásarmaðurinn, sem dvaldi meðal annars á Íslandi í tíu daga, sendi beint út frá árásinni á Facebook-síðu sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×