Íslenski boltinn

Hannes meiddur og missir af leiknum við ÍBV

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hannes Þór Halldórsson kom til Vals í vetur
Hannes Þór Halldórsson kom til Vals í vetur vísir/vilhelm
Hannes Þór Halldórsson er meiddur og verður ekki með Val gegn ÍBV í Pepsi Max deild karla á laugardag. Þess í stað heldur hann út til Ítalíu og verður viðstaddur brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Fótbolti.net greindi frá því að landsliðsmarkvörðurinn meiddist fyrir leik Íslands og Tyrklands í undankeppni EM 2020 síðastliðinn þriðjudag en spilaði þó leikinn.

„Það small eitthvað aftan í, rétt áður en ég fór inn í klefa eftir upphitunina. Ég varð síðan aðeins verri í leiknum. Ég verð því ekki klár í næsta leik og í einhverja daga eftir sennilega,“ sagði Hannes við fótbolta.net.

Hannes segist reikna með viku til 10 dögum að ná sér eftir svona meiðsli og því óvíst hvort hann geti staðið í markinu þegar Valur mætir KR á miðvikudag.

Félagi Hannesar í landsliðinu, Gylfi Þór Sigurðsson, giftist unnustu sinni Alexöndru Helgu Ívarsdóttur í Como á Ítalíu um helgina og verða þar samankomnir margir landsliðsmenn. Hannes ætlaði ekki að fara vegna leiks Vals og ÍBV en fékk grænt ljós frá Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals, til þess að taka sér smá frí og fara til Ítalíu í ljósi meiðslanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×