Íslenski boltinn

Bann Björgvins stendur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Björgvin í leik með KR.
Björgvin í leik með KR. vísir/bára
Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur staðfest fimm leikja bann Björgvins Stefánssonar, leikmanns KR, fyrir ummælin sem hann lét falla í lýsingu á leik Hauka og Þróttar í Inkassodeild karla.

Björgvin var dæmdur í bann af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ þann 6. júní síðast liðinn en umrætt atvik átti sér stað 23. maí.

KR og Björgvin áfrýjuðu málinu og kröfðust þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Áfrýjunardómstóll KSÍ varð hins vegar ekki við þeim kröfum og stendur bannið.

Björgvin er uppalinn hjá Haukum og var einn af lýsendum Hauka TV á umræddum leik. Þar sagði hann „þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ um Archie Nkumu, leikmann Þróttar. Sindri Hjartarson vakti fyrst athygli á málinu á Twitter.

Björgvin baðst strax afsökunar á málinu en Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, vísaði því til aga- og úrskurðarnefndar með áðurnefndum afleiðingum. 

Bannið nær yfir allar keppnir á vegum KSÍ en þar sem Björgvin var nú þegar kominn í bann í Mjólkurbikarnum fyrir uppsöfnuð gul spjöld þá á þetta bann ekki við um þann leik og því missir Björgvin í raun af næstu sex leikjum KR. 

Næstu leikir KR í deildinni eru gegn ÍA á útivelli, Val á heimavelli, FH á útivelli, Breiðabliki á heimavelli og ÍBV á útivelli. Björgvin má aftur fara að spila með KR í 13. umferð þegar Stjarnan mætir á Meistaravelli 21. júlí.

Björgvin gæti hins vegar spilað með KR-ingum þegar þeir fara af stað í forkeppni Evrópudeildarinnar en leikirnir í fyrstu umferð forkeppninnar eru spilaðir 11. og 18. júlí.



Allan úrskurðinn má sjá hér.




Tengdar fréttir

Björgvin dæmdur í fimm leikja bann

Björgvin Stefánsson missir af næstu fimm leikjum með KR í Pepsi Max deildinni í fótbolta en Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kvað í dag upp úrskurð sinn í máli KSÍ gegn Björgvini Stefánssyni vegna ummæla sem hann lét falla sem lýsanda í leik Hauka og Þrótta í Inkasso deild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×