Íslenski boltinn

Segir Beiti hafa verið jafn besta leikmann mótsins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ellefta umferð Pepsi Max deildar karla í fótbolta hefst á morgun með þremur leikjum. Tvö efstu liðin KR og Breiðablik mætast á mánudagskvöldið en þau eru komin með góða forystu á önnur lið.

Tímabilið í Pepsi Max-deild karla hefur verið bráðskemmtilegt hingað til og margir ungir og efnilegir leikmenn fengið tækifæri.

Þorvaldur Örlygsson er einn sparkspekingur Pepsi Max-markanna og hann ræddi byrjunina á tímabilinu í íþróttafréttum kvöldsins.

„Mér finnst þetta hafa verið mjög skemmtilegt mót í heildina. Það hafa verið margir mjög góðir leikir og það eru fjölbreytt lið og fjölbreytt taktík,“ sagði Þorvaldur við Hörð Magnússon.

„Ef við horfum aftur um þrjú til fjögur ár þá vorum við fastir í sama kerfinu en nú sjáum við fleiri útfærslur. Menn eru að spekúlera og prufa önnur kerfi og það er skemmtilegra. Það eru breytulegir leikir.“

KR og Breiðablik eru í toppbaráttunni eins og er en þau mætast einmitt á mánudagskvöldið.

„Blikarnir hafa haft góðan stöðugleika í sumar miðað við undanfarin ár. Þeir eru að bæta í og breikka hópinn. Hópurinn er orðinn þokkalega stór og hafa úr mörgum leikmönnum að velja.“

„KR er kannski það lið sem hefur komið mest á óvart, hvað það varðar að á síðasta ári virtust þeir hálf þungir og þreyttir. Þeir hafa mjög stöðugir í ár og safnað stigum og komist á toppinn hægt og hljótt.“

„Ég myndi segja að ástæðan fyrir því er að vörnin hefur verið góð og sá leikmaður sem hefur verið hvað bestur og haldið mestum stöðugleika er Beitir í markinu. Hann er búinn að vera jafn besti leikmaður mótsins,“ sagði Þorvaldur.

Fréttina í heild sinni má sjá hér að ofan þar sem Þorvaldur ræðir einnig gengi Skagamanna og fleiri liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×