Íslenski boltinn

Alfreð um vítadóminn: „Hlægilegt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð var ekki par sáttur við vítaspyrnudóminn.
Alfreð var ekki par sáttur við vítaspyrnudóminn. vísir/bára
Alfreð Elías Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var langt frá því að vera sáttur með vítaspyrnuna sem hans lið fékk á sig gegn Fylki í Árbænum í kvöld. Ída Marín Hermannsdóttir fiskaði vítið, skoraði sjálf úr því og jafnaði í 1-1 sem urðu lokatölur leiksins. Vítaspyrnudóminn má sjá neðst í fréttinni.

„Það er hlægilegt,“ sagði Alfreð og skellti upp úr. Honum var samt ekki hlátur í huga.

„Það er ótrúlegt að dómarinn [Þórður Már Gylfason] hafi dæmt þessa vítaspyrnu. Annars átti hann mjög góðan leik en gerði góða skitu þarna og veit upp á sig sökina þegar hann sér þetta,“ sagði Alfreð og bætti við að Selfoss hefði átt að fá víti í leiknum.

„Þegar Grace [Rapp] var toguð niður áttum við fá víti. Þetta eru tveir stórir dómar og þá getur maður sagt að dómarinn hafi átt lala leik, ekki góðan leik.“

Alfreð hefði viljað fara heim á Selfoss með þrjú stig í farteskinu.

„Fyrirfram hefði ég verið sáttur með stig en ekki miðað við hvernig leikurinn spilaðist áttum við að vinna.“

Alfreð kvaðst sáttur með spilamennsku Selfyssinga í kvöld.

„Það var örugglega skemmtilegt að horfa á þennan leik. Hraðinn var mikill. Við hefðum þurft að vera rólegri á boltanum síðustu 20 mínúturnar. En þetta var mjög vel spilaður leikur hjá okkur fannst mér,“ sagði þjálfarinn að lokum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×