Íslenski boltinn

Haukar völtuðu yfir Njarðvík

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr leik Hauka á síðustu leiktíð
Úr leik Hauka á síðustu leiktíð fréttablaðið/ernir
Haukar unnu stórsigur á Njarðvík suður með sjó í Inkassodeild karla í kvöld.

Fyrsta mark leiksins kom á 16. mínútu þegar Aron Freyr Róbertsson skoraði fyrir gestina úr Hafnarfirði og þeir tvöfölduðu forystuna aðeins níu mínútum seinna.

Á 35. mínútu skoraði Alexander Freyr Sindrason þriðja markið upp úr hornspyrnu og í uppbótartíma slógu Haukar lokahöggið á frábæran fyrri hálfleik með marki frá Ísaki Jónssyni.

Heimamenn náðu að klóra í bakkann á 49. mínútu með marki frá Ara Má Andréssyni og voru hársbreidd frá því að skora sitt annað mark tveimur mínútum seinna þegar Stefán Birgir Jóhannesson skaut aukaspyrnu í þverslána.

Þrátt fyrir kraft í Njarðvíkingum í seinni hálfleik voru þeir komnir ofan í of djúpa holu og náðu ekki að komast upp úr henni. Í staðinn skoraði Daði Snær Ingason fimmta mark Hauka í uppbótartíma, lokatölur 5-1.

Úrslitin þýða að Haukar fara með níu stig upp fyrir Njarðvíkinga og senda þá í staðinn niður í fallsæti. Þeir fara einnig upp fyrir Aftureldingu á markatölu, en Mosfellingar eiga leik til góða.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×