Losun gróðurhúsalofttegunda frá urðuðum úrgangi er um sjö prósent af losun áÍslandi. Með grænum skatti er markmiðið að mynda hvata til að flokka sorp.
„Um er að ræða tvenns konar græna hvata. Annars vegar að leggja skatt á urðun sorps sem er í dag um sjö prósent af þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Hins vegar stendur til að setja skatta á gös sem notuð eru í kælibúnaði og eru einnig ábyrg fyrir um sjö prósent af útlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi að sögn Guðmundar.

„Þetta eru að mínu mati mjög mikilvægar aðgerðir í umhverfismálum til að hvetja til þess að það verði flokkað meira. Með urðununni erum við að valda of mikilli útlosun gróðurhúsalofttegunda en með þessum skatti verður dýrara að urða og samkeppnishæfara að endurvinna,“ sagði Guðmundur Ingi.
Þessi svokallaði græni skattur er hluti af tillögum í fjármálaáætlun sem var til umræðu í þinginu í dag. Von er á því að græni skatturinn verði innleiddur í skrefum á næsta og þar næsta ári.