Íslenski boltinn

Sjáðu dramatíkina í Árbænum og hvernig Stjarnan afgreiddi botnliðið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tveimur leikjum er lokið í Pepsi Max-deild karla í dag. Fylkir vann endurkomusigur á KA og Stjarnan sótti þrjú mikilvæg stig til Eyja.

Markalaust var í hálfleik í Vestmannaeyjum í dag er Stjarnan var í heimsókn en vítaspyrna Hilmars Árna Halldórssonar og vippa Guðmundar Steins Hafsteinssonar skilaði þremur stigum í hús.

Eftir sigurinn er Stjarnan komið upp í þriðja sæti deildarinnar með átján stig en ÍBV er fast við botninn. Liðið er með fimm stig og er jafn mörgum stigum frá öruggu sæti.

Í Árbænum mættust Fylkir og KA í hörkuleik. Valdimar Þór Ingimundarson kom Fylki yfir en Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði úr víti skömmu fyrir hlé.

Hallgrímur Mar skoraði annað mark sitt og KA á 54. mínútu en ellefu mínútum fyrir leikslok jafnaði Valdimar Þór metin.

Sigurmarkið kom svo í uppbótartíma er Hákon Ingi Jónsson skoraði sigurmarkið eftir fallega fyrirgjöf og 3-2 sigur Fylkis.

Fylkir er með fimmtán stig í fimmta sætinu en KA er sæti neðar með þremur stigum minna.

Mörkin úr leikjunum má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×