Íslenski boltinn

Ragna Lóa leitaði í reynslubanka Olgu Færseth fyrir sigurinn gegn Stjörnunni

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Ragna Lóa ásamt Gísla aðstoðarmanni sínum á hliðarlínunni í kvöld.
Ragna Lóa ásamt Gísla aðstoðarmanni sínum á hliðarlínunni í kvöld. vísir/daníel þór
KR vann í kvöld 1-0 sigur á Stjörnunni í 9. umferð Pepsi-Max deild kvenna. KR skipti um þjálfara á milli umferða svo þetta var fyrst leikur Rögnu Lóu Stefánsdóttur sem aðalþjálfara KR. Ragna Lóa var aðstoðarþjálfari þar á undan en Bojana Becic steig til hliðar fyrr í vikunni.

 

„Það kom ekkert annað til greina en að vinna. Við vorum alltaf ákveðnar í því að labba héðan frá þessum velli með 3 stig. Þetta er okkar heimavöllur og við teljum okkur vera sterkar á honum,” sagði Ragna Lóa Stefánsdóttir bráðabirgðaþjálfari KR eftir leik kvöldsins aðspurð hvort eitthvað annað en sigur hafi komið til greina í kvöld.

 

Grace Maher kom KR yfir með marki á 90. mínútu.  KR voru búnar að banka á dyrnar allan seinni hálfleikinn og sást vel hversu mikla ánægju KR höfðu af því að skora.

 

„Tilfinningin var bara stórkostleg. Til þess að vinna leik þá þarf að skora og það hefur háð okkur í sumar svo þetta var mjög sætt.” 

 

„Ég tel að við höfum verið sterkari aðilinn í þessum leik. Það hefur háð okkur að við höfum ekki skorað nóg. Vonandi verður bara breyting á því og þetta er upphafið á einhvejru betra.” 

 

Ragna Lóa þjálfaði sinn fyrsta og mögulega seinasta leik í bili fyrir KR í kvöld. Bojana Becic steig til hliðar í síðustu viku og Ragna kom inn fyrir hana. 

 

„Undirbúningurinn var náttúrulega dálítið skrautlegur. Þjálfarinn okkar steig til hliðar en stelpurnar voru ákveðnar að stíga upp. Þær gerðu það í dag. Þær sýndu stórkostlega karakter og gáfust aldrei upp.” 

 

Ragna var ekki tilbúin að segja hver yrði næsti þjálfari KR en undirstrikaði það hinsvegar að hún er bráðabirgðaþjálfari eins og staðan er í dag. 

 

„Ég er svona bráðabirgðaþjálfari, það kemur nýr þjálfari inn á næstu dögum. Þá verðum við bara ennþá sterkari.” 

 

„Það er ekki orðið ljóst ennþá. Það eru einhver nöfn í sigtinu en vonandi verður það bara einhver frábær þjálfari.” 

 

Þjálfaraskipti geta stundum riðlað í skipulagi hjá liðum en það var ekki þannig hjá KR í kvöld. Ragna leitaði til fótboltasnillings til að undirbúa liðið fyrir leik kvöldsins.

 

„Undirbúningurinn hjá mér gekk ágætlega. Ég verð nú að segja það að ég var að ræða við hana Olgu Færseth, hina fótboltakonu. Hún sagði mér að hætta þessu væli og skipta bara í tvö lið. Leyfa þeim að spila og fá leikgleðina aftur. Ég held að við gerum það bara það sem eftir er sumars, spilum bara, förum í reit og höfum bara gaman.” 

 

Fylgdir þú eftir þessari nálgun sem Olga lagði til?

 

„Af sjálfsögðu, það á alltaf að hafa gaman í fótbolta. Það skilaði sér líka í leiknum.” 

 

Olga Færseth er ein besta íþróttakona sem Ísland hefur alið. Olga varð til að mynda fjórum sinnum Íslandsmeistari með KR í fótbolta. Auk þess að vera landsliðskona í fótbolta var hún landsliðskona í körfubolta. Olga spilaði 54 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 14 mörk. 

 

„Olga Fersæth lagði bara upp leikkerfið fyrir þennan leik.”




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×