Íslenski boltinn

Pedersen: Frábært að byrja með marki á heimavelli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Patrick Pedersen skoraði 17 mörk í 21 leik fyrir Val síðasta sumar. Hann er strax byrjaður aftur.
Patrick Pedersen skoraði 17 mörk í 21 leik fyrir Val síðasta sumar. Hann er strax byrjaður aftur. vísir/bára
Patrick Pedersen var ekki lengi að finna gamla takta í Pepsi Max deild karla. Hann skoraði mark strax í fyrsta leik með Val þegar Íslandsmeistararnir unnu KA á heimavelli sínum í kvöld.

„Það er frábært að vera kominn til baka. Að fá heimaleik í fyrsta leiknum og skora mark, ná í þrjú stig, ég er mjög ánægður,“ sagði Patrick Pedersen eftir leikinn.

Pedersen skoraði fyrsta mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks. Hann átti svo þátt í báðum mörkum Vals í seinni hálfleik, Valur vann leikinn 3-1.

Það var allt annað að sjá til Valsliðsins í dag, sóknarleikurinn var frábær og Daninn kom inn í liðið eins og hann hefði aldrei farið.

„Ég þekki strákana og þeir þekkja mig vel og mína kosti. Það er mjög auðvelt að passa inn í þetta lið og ég er mjög ánægður með að vera kominn til baka.“

Framherjinn öflugi meiddist aðeins í seinni hálfleik og var svo tekinn af velli stuttu síðar. Hann sagði þó að það væri í lagi með sig.

„Ég fékk smá krampa, ég hef ekkert spilað í einn og hálfan mánuð, en ég er í lagi.“

Það má því reikna með danska framherjanum á sínum stað í framlínu Vals þegar Íslandsmeistararnir mæta slóvensku meisturunum í Maribor í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í næstu viku en Pedersen sagðist ekki vita betur en að hann væri gjaldgengur með Val í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×