Nú þegar rykið er að setjast, forstjórar ríkisfyrirtækjanna Íslandspósts og ISAVIA, hafa tekið hatt sinnog staf og án vafa fengið ásættanlega starfslokasamninga, má velta fyrir sér efni fréttar sem Vísir birti í marsmánuði 2015, eða fyrir fjórum árum. Þá var Vigdís þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar. Hún fór mikinn, ruggaði bátum og gagnrýndi meðal annars harðlega forstjóra Isavia og Íslandspósts. Taldi þá stunda sukk og svínarí í skálkaskjóli ohf-unar ríkisfyrirtækja. Fyrirkomulag sem hún vildi leggja af.
Eins og krakkar í sælgætisbúð
Vigdís sagði þá Björn Óla Hauksson fyrrverandi forstjóra Isavia og Ingimund Sigurpálsson fyrrverandi forstjóra Íslandspósts, haga sér eins og krakka í sælgætisbúð.
Nú liggur fyrir, fjórum árum síðar, að þessi fyrirtæki eiga við verulegan rekstrarvanda að stríða.
„Já, þetta kemur mér ekki á óvart,“ segir Vigdís nú í samtali við Vísi. „Þegar ég var formaður fjárlaganefndar höfðum við bæði þessi ohf í gjörgæslu, ef svo má segja.“
„I told you so“
Vigdís segir að þau sem vildu gera þar bragarbót á, grípa til aðgerða, hafi mætt miklu andstreymi. Og stjórnir félaganna ásamt forstjórunum börðust gegn því af alefli.„Á ég ekki að segja: „I told you so“? En þetta tók tíma með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkið og álitshnekki fyrir þessi félög.“

„Ég og við í meirihluta fjárlaganefndar sáum strax á upphafstíma okkar í nefndinni að reksturinn var í molum í báðum tilvikum en gátum lítið gert þar sem um ohf væri að ræða. E-flokkurinn, sem er aldrei í framboði og er aldrei kosinn = embættismannaflokkurinn.“
Grímulaust skálkaskjól
Ohf-er sem sagt grímulaust skálkaskjól fyrir sukkið og pilsfaldakapítalismann?„Eigum við eitthvað að ræða RÚV ohf. í þessu sambandi?“ spyr Vigdís.
Ohf stendur fyrir Opinbert hlutafélag og er afbrigði af hlutafélagi sem leitt var í lög árið 2006. Um er að ræða félög sem eru alfarið í eigu hins opinbera, hvort heldur er um að ræða ríkis eða sveitarfélaga eða bæði. Tilgangur fyrirkomulagsins var að með því mætti bæta aðgengi almennings og annara um hlutafélög sem hið opinbera átti en hið þveröfuga hefur í raun gerst. Hin opinberu fyrirtæki vísa jafnan til samkeppnissjónarmiða og vilja helst sem minnstar upplýsingar veita.