Íslenski boltinn

Alexandra: Unnið stig hjá okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexandra sækir að Valskonunni Elínu Mettu Jensen.
Alexandra sækir að Valskonunni Elínu Mettu Jensen. vísir/bára
„Það var gríðarlega sterkt að koma til baka. Það eru ekkert allir sem gera það eftir að hafa lent 2-0 undir gegn liði eins og Val. Þetta var fínt,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir, hetja Breiðabliks í toppslagnum gegn Val í kvöld.

Valur komst í 2-0 en Berglind Björg Þorvaldsdóttir minnkaði muninn undir lok fyrri hálfleiks. Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum skoraði Alexandra svo jöfnunarmark Breiðabliks. Lokatölur 2-2.

„Ég myndi segja að þetta sé unnið stig miðað við að við lentum 2-0 undir. En við förum í alla leiki til að vinna og erum kannski ekki alveg nógu sáttar með eitt stig. En við tökum það frekar en ekki neitt,“ sagði Alexandra.

Hún kvaðst sátt með spilamennsku Breiðabliks í seinni hálfleiknum en í þeim fyrri átti liðið undir högg að sækja á löngum köflum.

„Seinni hálfleikur var jafn. Þær voru meira með boltann en við fengum fleiri færi. Mér fannst nokkuð sanngjarnt að við skoruðum í lokin,“ sagði Alexandra.

Hún bætti við að mark Berglindar undir lok fyrri hálfleiks hafi gefið Blikum byr undir báða vængi.

„Það skipti gríðarlega miklu máli og gaf okkur auka kraft. Við komum af krafti inn í seinni hálfleik og fengum strax tvö færi. Markið hjá Berglindi gaf okkur mikinn kraft.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×