Íslenski boltinn

Breiðablik skoðar markmannsmálin vegna meiðsla: Buðu í Anton Ara en tilboðinu hafnað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Anton Ari í leik með Val á síðustu leiktíð.
Anton Ari í leik með Val á síðustu leiktíð. vísir/bára
Breiðablik gerði í dag tilboð í markvörð Vals, Anton Ara Einarsson, en því tilboði var hafnað. Markverðir Kópavogsliðsins hafa verið í meiðslum og því var þessi möguleiki skoðaður.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdarstjóri Breiðabliks, staðfesti þetta í samtali við Vísi nú undir kvöld en hann segir að Breiðablik sé að skoða alla sína möguleika hvað varðar markmannsmál.

Tilboðinu var hafnað en Anton Ari hefur verið varamarkvörður Vals á þessari leiktíð eftir að Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, gekk í raðir Vals í aprílmánuði.

Gunnleifur Gunnleifsson, aðalmarkvörður liðsins, meiddist í stórleiknum gegn KR á mánudagskvöldið en óvíst er hvort að hann verði klár í slaginn er liðið mætir HK í Kópavogsslag á sunnudaginn.

Sjá einnig:Gunnleifur: Er fíkill í fótbolta og dettur ekki til hugar að missa af næsta leik

Hlynur Örn Hlöðversson kom inn í mark Breiðablik gegn KR er Gunnleifur fór meiddur af velli. Hlynur hefur einnig verið að glíma við smávægileg meiðsli og er afar reynslulítill markvörður í efstu deild.

Breiðablik er einnig samningsbundið Ólafi Íshólm Ólafssyni en Ólafur er á láni hjá Fram. Ólafur hefur verið að spila vel í marki Fram sem er við toppinn í Inkasso-deildinni.

Sagði Eysteinn að Blikarnir vilji hugsa sig tvisvar um hvort að þeir vilji kalla Ólaf til baka, enda hann að næla sér í mikilvæga reynslu í Inkasso-deildinni.

Framkvæmdarstjórinn sagði þó að lokum að Gunnleifur væri þeirra maður númer eitt í markinu en félagið vilji vera með varann á ef eitthvað fer úrskeiðis, enda leikjadagskráin þétt næstu vikur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×