Mál Eflingar og verkamannanna gegn Eldum rétt og MIV hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur en Eldum rétt er stefnt á grundvelli laga um keðjuábyrgð, sem gerir fyrirtækið ábyrgt fyrir því að kjör verkamanna og aðstæður séu sómasamlegar. Samkvæmt Eflingu snýr dómsmálið að ólöglegum launafrádrætti og nauðungarvinnu.
Í tilkynningu frá Eflingu segir jafnframt að nokkur fyrirtæki hafi keypt vinnuafl frá Mönnum í vinnu. Lögmannsstofan Réttur hafi að beiðni Eflingar farið fram á að þau ábyrgist kaup og kjör starfsmanna sem Menn í vinnu höfðu brotið á. Öll fyrirtækin hafi gengist við því, nema Eldum rétt sem keypti vinnuafl af starfsmannaleigunni í janúar.
Fengu upplýsingar um að allt væri í lagi
Kristófer Júlíus Leifsson framkvæmdastjóri Eldum rétt segir að þegar fyrirtækið hafi ráðið starfsfólk frá Mönnum í vinnu hafi Vinnumálastofnun þegar gefið grænt ljós á starfsemi starfsmannaleigunnar.„Það eru þær upplýsingar sem við höfum í höndunum. Að það sé búið að fara í úttekt á þessu fyrirtæki og það sé allt í lagi.“
Í yfirlýsingu sem Eldum rétt sendi frá sér nú skömmu fyrir hádegi segir að ágreiningurinn snúi aðallega að því hvort starfsmannaleigunni hafi verið heimilt að draga frá launum starfsmanna fyrirframgreidd laun og útlagðan kostnað, einkum vegna húsnæðis síma, líkamsræktar og ferðalaga.
Umræddir starfsmenn hafi unnið hjá Eldum rétt í gegnum Menn í vinnu í samtals fjóra daga á tvegja til fjögurra vikna tímabili í janúar og febrúar.
Ekki sé deilt um að starfsmennirnir nutu allra lágmarkskjara á þeim tíma. Ábyrgð Eldum rétt nái samkvæmt lögum ekki til þess að greiða fyrirframgreidd laun og útlagðan kostnað fyrir starfsmennina.
Vilja axla ábyrgð
Kristófer segir að ef starfsmennirnir hafi ekki fengið greidd fyrir fram greidd laun þurfi að sjálfsögðu að fara yfir það. Hann ítrekar hins vegar að starfsmennirnir hafi aðeins unnið hjá fyrirtækinu í fjóra daga en reikningurinn frá Eflingu geri ráð fyrir miklu hærri upphæð en sem því nemur.„Við hörmum það ef það er búið að vera að beita þetta starfsfólk einhvers konar nauðung og við viljum svo sannarlega koma til móts við og ganga frá öllu sem þarf að ganga frá gagnvart þessu fólki, það er enginn vafi á því,“ segir Kristófer.
„Við viljum axla ábyrgð og við viljum greiða þessa keðjuábyrgð en við viljum að hún sé greidd á réttum forsendum.“