Íslenski boltinn

Stigin hjá liðunum í sigurgöngu KR-inga: Með fimmtán fleiri stig en FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason í leiknum á móti Blikum.
Pálmi Rafn Pálmason í leiknum á móti Blikum. Vísir/Bára
KR-ingar eru á lengstu sigurgöngu sinni í úrvalsdeildinni í fótbolta í sex ár og eru orðnir langsigurstranglegsta liðið í Pepsi Max deildinni í sumar.

KR náði fjögurra stiga forystu með sigrinum á Blikum á Meistaravöllum á mánudagskvöldið. Það var sjöundi sigurleikur liðsins í röð í deildinni og níundi sigurinn í röð í öllum keppnum.

KR var „aðeins“ með fimm stig af tólf mögulegum og í sjötta sæti eftir tap á móti Grindavík í fjórðu umferð. KR-ingar hafa hins vegar ekki tapað einu einasta stigi síðan.

Það er fróðlegt að skoða stig liðanna á þessar 47 daga sigurgöngu KR-liðsins. KR hefur á þeim tíma unnið HK (3-2), Víking (1-0), KA (1-0), ÍA (3-1), Val (3-2), FH (2-1) og Breiðablik (2-0).

Þar kemur meðal annars fram að Valsmenn hafa fengið þremur stigum meira en FH-ingar en FH-liðið á reyndar leik inni á Val. FH er aðeins með tíunda besta árangurinn í deildinni á meðan KR-liðið hefur verið á þessari sigurgöngu sinni.

KR hefur alls fengið fimmtán stigum meira en FH á þessum tíma en KR vann 2-1 sigur á FH í innbyrðis leik liðanna í Kaplakrika á dögunum.

Næstir KR-ingum eru Blikar með níu stigum minna en KR en KR vann einmitt 2-0 sigur á Blikum í toppslagnum.

Vesturbæingar eiga síðan næstu leiki á móti ÍBV, Stjörnunni, Fylki og Grindavík en KR-ingum tókst ekki að vinna þrjú þeirra í fyrri umferðinni (Stjarnan, Fylki og Grindavík).

Stig liða í Pepsi Max deild karla í sigurgöngu KR:

1. KR 21 stig

2. Breiðablik 12 stig

3. Stjarnan 10 stig

4. Fylkir 10 stig

5. Valur 9 sitg

6. KA 9 stig

7. Víkingur 9 stig

8. ÍA 7 stig

9. Grindavík 6 stig

10. FH 6 stig

11. HK 4 stig

12. ÍBV 4 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×