Landsréttur staðfesti síðasta fimmtudag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í maí, sem hafnaði því að kyrrsetningaraðgerð á eigum konu væri dæmd ógild. Farið var í umrædda kyrrsetningaraðgerð í lok desember á síðasta ári að beiðni skattrannsóknarstjóra til að tryggja greiðslu væntanlegrar skattkröfu og sektar.
Kyrrsetningin var framkvæmd í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra á skattamálum fyrrverandi eiginmanns konunnar.
Samkvæmt heimildum Vísis er þar um að ræða Sigurð Gísla Björnsson, stofnanda og fyrrum eiganda fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks.
Nafn Sigurðar kom upp í Panama-skjölunum, og varð það kveikjan að rannsókn skattrannsóknarstjóra á málum hans og fyrirtækisins.
Fyrrverandi eiginkona Sigurðar sótti málið fyrir Landsrétti, en í
dómsúrskurði Landsréttar kemur fram að hjónaband þeirra hafi lokið með skilnaði í febrúar árið 2013.
Í dómsúrskurðnum kemur fram að tollstjóri hafi farið þess á leit við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu í desember 2018 að eignir Sigurðar að fjárhæð 1.173.000.000 króna yrðu tafarlaust kyrrsettar, í kjölfar beiðni skattrannsóknarstjóra.
Sú kyrrsetning reyndist árangurslaus þar sem engar eignir fundust. Í kjölfarið fór tollstjóri þess á leit við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að eignir konunnar yrðu kyrrsettar, samtals að virði 326.800.000 króna.
Samkvæmt dómsúrskurðinum beindist rannsókn skattrannsóknarstjóra einkum að eignar- og stjórnunartengslum Sigurðar við félög sem skráð voru á lágskattasvæðum. Leikur grunur á því að hann hafi haft umtalsverðar tekjur af þeim félögum án þess að geta þeirra á skattframtölum.
Konan leit svo á að ekki hafi verið fyrir hendi lagaleg skilyrði fyrir kyrrsetningunni á eignum hennar og fór fram á að kyrrsetningin yrði úrskurðuð ólögmæt og felld úr gildi. Landsréttur féllst ekki á þau rök og staðfesti þar með úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði einnig kröfu konunnar.
Uppfært: Í fyrri útgáfu þessarar fréttar kom fram að árangurslaus kyrrsetning á eignum Sigurðar hafi farið fram í desember 2017. Hið rétta er að hún fór fram í desember 2018. Fyrri kyrrsetningaraðgerðin sem farið var í árið áður var ekki árangurslaus.