Íslenski boltinn

Pepsi Max mörkin: Ólöglegt innkast og vítaspyrna sem átti aldrei að vera víti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Störnumenn höfðu heppnina með sér út í Eyjum.
Störnumenn höfðu heppnina með sér út í Eyjum. Vísir/Bára
Stjörnumenn unnu 2-0 sigur á ÍBV í 11. umferð Pepsi Max deildar karla en lykilatriðið fyrir Garðbæinga í þessum mikilvæga útisigri var fyrra markið þeirra sem þeir skoruðu úr umdeildri vítaspyrnu.

Eyjamenn voru mjög ósáttir með þennan dóm og Pepsi Max mörkin tóku fyrir vítaspyrnudóm Helga Mikaels Jónassonar í þætti sínum í gær.

„Toddi, vendipunkturinn var á 73. mínútu,“ sagði Hörður Magnússon, umsjónarmaður Pepsi Max markanna, við Þorvald Örlygsson sem tók undir það en hér fyrir neðan má sjá umræðu Pepsi Max markanna um vítaspyrnuna í Eyjum.

Klippa: Pepsi Max mörkin: Vítaspyrnudómurinn í Vestmanneyjum
Umrædd vítaspyrna var dæmd eftir meint brot Víðis Þorvarðarsonar á Brynjari Gauta Guðjónssyni.

„Heldur betur,“ svaraði Þorvaldur og fór svo yfir fyrsta þetta mark Stjörnumanna sem kom eftir innkast. Það kom nefnilega í ljós í endursýningunni að Garðbæingar tóku innkastið með ólöglegum hætti.

„Í fyrsta lagi þá er leikmaðurinn inn á vellinum þegar hann tekur innkastið sem er því ólöglegt,“ byrjaði Þorvaldur en svo var komið að brotinu.

„Helgi dómari er þarna alveg við þetta. Þegar ég sá þetta fyrst þá hélt að hann hafi verið í það góðri stöðu að hann hafi alltaf séð þetta. Eftir að hafa horft á þetta, í endursýningu og stækkað upp, þá verð ég að vera ósammála dómaranum. Ég held að hann hafi verið of fljótur á sér að dæma víti,“ sagði Þorvaldur og hinn sérfræðingur þáttarins var sammála.

„Mér finnst þetta ekki vera víti og skil ekki hvernig hann fær þetta út,“ sagði Atli Viðar Björnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×