Umfjöllun og viðtöl: HK/Víkingur - Keflavík 1-1 | Jafnt í fallslagnum í Fossvoginum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Keflavík hefur aðeins tapað einum af síðustu fimm deildarleikjum sínum.
Keflavík hefur aðeins tapað einum af síðustu fimm deildarleikjum sínum. Vísir/Daníel
HK/Víkingur og Keflavík deila stigunum með sér eftir 1-1 jafntefli liðanna í Víkinni í kvöld í leik sem bæði lið þurftu að vinna. Fatma Kara kom HK/Víking yfir eftir klukkutímaleik en Sophie Groff jafnaði fyrir Keflavík þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Aðstæður í Víkinni voru hreint út sagt stórkostlegar í kvöld en sólin skein skært og vindáttin var hagstæð þar sem hún var engin. Var þetta fyrsti heimaleikur Rakelar Logadóttur sem aðalþjálfara HK/Víkings en hún stjórnaði liðinu í 4-2 tapinu gegn KR á dögunum.

Heimastúlkur hófu leikinn svo af miklum krafti en fyrri hálfleikur var einkar kaflaskiptur. Bæði lið skiptust á að hafa stjórn á leiknum og þó þau hafi ekki skorað á fyrstu 45 mínútum leiksins þá fengu bæði lið fínustu færi.

Audrey Rosa Baldwin í marki HK/Víkings varði nokkrum sinnum mjög vel og það sama má segja um stöllu hennar, Aytac Sharifova, í marki Keflavíkur. Þá hefur Natasha Anashi, fyrirliði Keflavíkur, verið súr yfir því að langskot hennar small í þverslánni en Keflavíkur liðið hafði þá spilað sig upp nær allan völlinn áður en Anashi lét vaða af um það bil 25 metra færi. Allt kom þó fyrir ekki og staðan markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var svipaður og sá fyrri en mikið var um stöðubaráttu út á velli. Strax eftir fimm mínútna leik fengu gestirnir algjört dauðafæri. Fyrst varði Audrey Baldwin frá Sveindísi Jane úr þröngu færi. Þaðan fór boltinn til Anítu Lind sem náði ekki að koma knettinum nægilega vel fyrir sig en náði þó skoti en aftur varði Baldwin í marki HK/Víkings. Stórkostleg markvarsla.

Það var svo tíu mínútum síðar sem heimakonur komust yfir með stórkostlegu marki Fatma Kara. Hún lék þá inn völlinn frá vinstri og átti þetta draumaskot með vinstri fæti sem fór í þverslána og inn alveg út við samskeyti marksins. Óverjandi og staðan orðin 1-0 fyrir HK/Víking.

Leikurinn breyttist lítið við markið en Keflavík var almennt sterkari aðilinn í síðari hálfleik. Flestar þeirra sóknir strönduðu á Audrey Rose í markinu en hún átti frábæran leik. Hún slapp þó með skrekkinn þegar hún reyndi að grípa langskot Natasha Anasi í stöng og inn en til mikillar lukku var búið að flagga rangstöðu. Skömmu síðar átti Anasi svo skalla í slá eftir langt innkast Sveindísar.

Það var svo þegar það voru fimm mínútur af leiknum þegar Keflavík jafnaði metin. Það gerði Sophie Groff eftir að hún og Sveindís sluppu í gegnum vörn HK/Víkings. Audrey Baldwin hljóp Sveindísi niður í þann mund sem hún lagði knöttinn á Groff sem gat ekki annað en skorað og staðan orðin 1-1.

Reyndust það lokatölur leiksins en leikurinn var enda á milli í uppbótartíma og bæði lið við það að komast í færi til þess að vinna leikinn.

Jafnteflið þýðir að Keflavík er nú í 5. sæti með 10 stig. HK/Víkingur fer úr botnsætinu og upp í það 9. en líkt og Fylkir er liðið með 7 stig.

Af hverju varð jafntefli?

Af því það var sanngjörn niðurstaða í skemmtilegum leik. Vantaði herslumuninn upp á sóknarleik beggja liða en bæði lið hefðu átt að bæta við mörkum.

Hverjar stóðu upp úr?

Audrey Baldwin var mjög góð í marki HK/Víkings og það sama má segja um Gígju Valgerði í miðverðinum, bjargaði hún tvisvar meistaralega. Þá skoraði Fatma Kara gull af marki en sást ef til vill ekki nægilega mikið fyrir utan það. Hjá Keflavík var Sveindís Jane öflug að venju og þá var Natasha Anasi sterk á miðjunni. 

Hvað gekk illa?

Að nýta færin. Bæði lið fengu urmul marktækifæra en nýttu aðeins eitt hvort. Eðlilegra hefði verið að leikurinn hefði farið 3-3 frekar en 1-1. Þá átti Aníta Lind ekki góðan dag í liði Keflavíkur en hún komst ítrekað í góðar fyrirgjafastöður eða skotfæri en nýtti ekkert af því.

Hvað gerist næst?

HK/Víkingur fær Stjörnuna í heimsókn á þriðjudaginn kemur en sá leikur hefst klukkan 19:15. Keflavík fer til Vestmannaeyja og mætir þar heimastúlkum í ÍBV en sá leikur hefst klukkan 18:00.

Rakel stýrir HK/Víkingi út tímabilið.mynd/hk
Rakel: Bara áfram gakk hjá okkur

„Ekkert svekkjandi neitt þó við höfum misst þetta niður. Bæði lið fengu færi til að klára svo ég held þetta hafi verið sanngjarnt jafntefli í mjög skemmtilegum leik. Ég var mjög ánægð með mínar stelpur, baráttan til fyrirmyndar og spilið fram á við miklu betra en í síðasta leik svo ég er nokkuð sátt við punkt,“ sagði Rakel Logadóttir, þjálfari HK/Víkings, aðspurð hvort það hefði ekki verið svekkjandi að fá á sig jöfnunarmark undir lok leiks í kvöld.

„Það gæti verið, einhverjar í sólbaði um daginn eða eitthvað,“ sagði Rakel glottandi þegar hún var spurð út í hvort veðrið hefði haft áhrif á að það hefði dregið fyrr af leikmönnum í kvöld heldur en ella.

„Við höldum áfram okkar leik, það er bara áfram gakk hjá okkur,“ sagði Rakel að lokum aðspurð hvort jöfnunarmark kvöldsins gæti haft slæm áhrif á hóp HK/Víkings.

Gunnari fannst vanta yfirvegun hjá sínu liði.vísir/vilhelm
Gunnar: Vorum óþolinmóðar á köflum og ekki á tánum allan leikinn

„Þetta var hörkuleikur og ótrúlega skemmtilegur, sérstaklega í seinni hálfleik. Mikið fjör, færi á báða bóga, góðir markmenn en auðvitað vill maður alltaf þrjú stigin. Svona heilt yfir getum við samt sæst á eitt stig gegn mjög góðu HK/Víkings liði,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, varðandi sín fyrstu viðbrögð eftir leik kvöldsins.

„Þær komu mjög sterkar til leiks svo eflaust hefur það eitthvað að segja,“ sagði Gunnar aðspurður út í hvort þjálfaraskiptin hefðu hjálpað HK/Víking eitthvað fyrir leikinn.

Gunnar hefði viljað sjá meiri ró hjá leikmönnum sínum í kvöld.

„Mér fannst vanta yfirvegun á köflum og finna betri opnanir. Vorum svolítið óþolinmóðar á köflum og ekki vera á tánum allan leikinn sem hefur verið okkar einkenni í sumar.“

„Já þannig séð, við byrjuðum illa eins og allir vita svo við getum ágætlega vel við unað,“ sagði Gunnar að lokum eftir að hafa verið spurður hvort Keflavíkur liðið væri sátt með sumarið til þessa.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira