Íslenski boltinn

Var þriðji markvörður FH en fær nú traustið: „Örugglega engin ástæða fyrir því að skipta“

Anton Ingi Leifsson skrifar
FH-ingar hafa lent í markmannsvandræðum á leiktíðinni. Í 11 leikjum í Pepsi Max-deildinni hafa þrír leikmenn varið mark Fimleikafélagsins.

Gunnar Nielsen var aðalmarkvörður FH, rétt eins og síðustu tímabil, en hann brotnaði gegn KA í þriðju umferð og næstu fimm leiki var Vignir Jóhannesson í markinu.

Eftir meiðsli Vignis fékk hins vegar Daði Freyr Arnarson tækifærið og hefur staðið pliktina vel í marki Fimleikafélagsins sem vann langþráðan sigur í síðustu umferð.

„Heilt yfir er þetta búið að vera frábær tilfinning að spila alvöru fótbolta með frábæru liði og leikmönnum,“ sagði Daði í samtali við Ingva Þór Sæmundsson. En er pilturinn ungi ánægður með sína frammistöðu?

„Já. Ég var ekki að búast við neinu og einbeiti mér bara að einföldu hlutunum. Það er mjög þægilegt að fá traustið hjá þjálfurunum. Hann veit hvað ég get í markinu og leyfir mér að spila eins og ég vil.“

Daði Freyr er uppalinn á Súgandafirði en hann fékk sína eldskírn í meistaraflokki með BÍ/Bolungarvík, síðar Vestra. Hann hefur leikið þar sem lánsmaður síðustu tvö tímabil.

„Hinir tveir markverðirnir eru tveir frábærir markmenn með miklu meiri reynslu en ég. Þeir eru búnir að vera mjög óheppnir og þetta er það sem ég hef viljað síðan ég kom hingað.“

„Sem betur fer er ég með stuðning frá þeim tveim og markmannsþjálfaranum og öllu liðinu. Það gerir þetta þægilegra og skemmtilegra,“ en hann ætlar ekkert að gefa sætið eftir.

„Svo lengi sem ég stend mig eins og ég er að gera, þá er örugglega engin ástæða fyrir því að þurfa að skipta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×