Íslenski boltinn

Spilaði með Blikum á KR-vellinum á dögunum en er núna kominn í Fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Örn Hlöðversson í leik með Blikum á móti KR á KR-vellinum fyrir tíu dögum.
Hlynur Örn Hlöðversson í leik með Blikum á móti KR á KR-vellinum fyrir tíu dögum. Vísir/Bára
Hlynur Örn Hlöðversson, varamarkvörður Gunnleifs Gunnleifssonar hjá Breiðabliki, er farinn frá Kópavogsfélaginu.

Stuðningsmannavefur Blika segir að Hlynur Örn Hlöðversson hafi gengið til liðs við Fram í Inkasso-deildinni. Hlynur þekkir til hjá félaginu en hann lék með Safamýrarliðinu sumarið 2017.

Hlynur Örn spilaði í 78 mínútur á móti KR í toppslag Pepsi Max deildar karla á dögunum en hann kom þá inn fyrir Gunnleif Gunnleifsson sem meiddist í byrjun leiks. Hlynur kom inn á í stöðunni 1-0 og fékk eitt mark á sig í seinni hálfleiknum.





Gunnleifur var síðan búinn að ná sér af meiðslunum í næsta leik sem var á móti HK. Hlynur var þá ekki í hópnum en í stað hans var kominn Ólafur Íshólm Ólafsson. Blikar höfðu nefnilega áður kallað markvörðinn Ólaf Íshólm heim úr láni frá Inkassodeildarliði Fram. Þar opnaðist markmannsstaða fyrir Hlyn Örn.

Hlynur Örn er 23 ára gamall og á að baki 8 leiki með Breiðabliki og samtals 65 leiki með Njarðvík, Fjölni, Grindavík, Tindastól, KF og Augnabliki. Hlynur hefur verið í herbúðum Blika frá árinu 2012.  

Ólafur Íshólm hafði spilað alla leiki Framliðsins í Inkasso deildinni og staðið sig með miklum ágætum. Hann er 24 ára gamall og á að baki 5 leiki með Blikaliðinu. Ólafur kom til Blika frá Fylki árið 2017 þar sem hann lék 34 leiki með meistaraflokki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×