Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum, staðfestir að lögreglan hafi handtekið einstakling sem tæpt kíló af MDMA dufti á sér þann 18. júlí síðastliðinn.
Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hafi stöðvað viðkomandi sem kom til landsins frá Brussel í Belgíu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um að ræða 22 ára gamla íslenska konu.
Jón Halldór segir að efnin hafi fundist utan klæða. Þá hafi einnig viðkomandi einnig verið með efni innvortis.
Hann segir ekki algengt að MDMA duft náist á flugstöðinni. Efnið sé í svipuðum styrkleikaflokki og kókaín og amfetamín. „Þetta er gjarnan notað í framleiðslu á ecstasy töflum,“ segir Jón Halldór og bætir við að unnið sé að því að komast að því hvert efnin áttu að fara.

Að undanförnu hefur lögreglan á Suðurnesjum verið með tvö önnur stór fíkniefnamál til rannsóknar að undanförnu. Þrír ungir karlmenn eru enn í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa smyglað rúmlega sextán kílóum af kókaíni til landsins og þá voru tveir karlmenn handteknir fyrr í þessum mánuði fyrir að hafa reynt að smygla tveimur kílóum af kristölluðu metamfetamíni til landsins.
Það sem af er ári hefur embættið lagt hald á mun meira magn af fíkniefnum en allt árið í fyrra þegar um fimmtán kíló náðust. Í hitt í fyrra eða árið 2017 var metár í haldlagningu fíkniefna hjá embættinu og segir Jón Halldór að magnið í ár sé sambærilegt því sem náðist allt árið 2017.
„Þá tókum við um 46 kíló af sterkum fíkniefnum sem að fóru um flugvöllinn. Nú er farið að slaga hátt í það. Það er allavega veruleg aukning frá árinu í fyrra,“ segir Jón Halldór. Hann bætir við að Tollgæslan og lögreglan á Suðurnesjum vinni hart að því að reyna stöðva innflutning fíkniefna.