Íslenski boltinn

Skoraði á 78 mínútna fresti í Lengjubikarnum er enn markalaus í Pepsi Max

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gonzalo Zamorano í leik á móti Breiðabliki í Pepsi Max deild karla í sumar.
Gonzalo Zamorano í leik á móti Breiðabliki í Pepsi Max deild karla í sumar. Vísir/Daníel
Spánverjinn Gonzalo Zamorano var sendur inn á völlinn á Skaganum í gærkvöldi til að reyna tryggja Skagamönnum jafntefli á móti Íslandsmeisturum Vals en niðurstaðan var sú sama hjá honum og í allt sumar.

Gonzalo Zamorano virðist hreinlega vera fyrirmunað að koma boltanum yfir markalínu mótherjanna í Pepsi Max deildinni.

Það stefndi aftur á móti í allt annað á undirbúningstímabilinu þegar það voru fáir heitari framherjar hér á landi.

Gonzalo Zamorano skoraði sex mörk í sjö leikjum í Lengjubikarnum og var þá með mark á aðeins 78 mínútna fresti. Hann skoraði meðal annars eftirminnilega þrennu á móti Stjörnumönnum og líka mark á móti Pepsi Max deildarliðum Grindavíkur og KA.

Leikurinn í gær var fjórtándi leikur Gonzalo Zamorano í Pepsi Max deildinni í sumar og Spánverjinn hefur ekki enn komist á blað.

Alls hefur Gonzalo Zamorano nú spilað 704 mínútur í Pepsi Max deildinni án þess að skora.

Hann fékk reyndar bara 12 mínútur í leiknum á móti Val í gær og bara 21 mínútu í leiknum á móti KA í umferðinni á undan.

Gonzalo Zamorano hefur samt byrjað inn á í helmingi leikja sinna eða í sjö leikjum af fjórtán. Í hinum hefur hann komið inná sem varamaður.

Frá því að Gonzalo Zamorano skoraði síðast í Lengjubikarleik á móti KA 21. mars eru liðnir 130 dagar. Hann hefur síðan spilað alls 968 mínútur í öllum keppnum án þess að skora.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×