Íslenski boltinn

Gary: Kraftaverk ef við höldum okkur í deildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gary í leik með Val fyrr í sumar.
Gary í leik með Val fyrr í sumar. vísir/daníel
Gary Martin var gríðarlega svekktur eftir tapið í Grindavík í dag enda um algjöran lykilleik að ræða fyrir ÍBV.

„Við hrundum bara í seinni hálfleik. Við gátum ekki varist tveimur föstum leikatriðum. Mér fannst þeir vera lélegasta lið deildarinnar í fyrri hálfleik, ekki eiga skilið að vera þar. Þeir spiluðu skelfilega og við hefðum kannski átt að drepa leikinn. Við hrundum í seinni hálfleiknum,“ sagði Gary Martin í samtali við blaðamann Vísis eftir leik.

Eftir flottan fyrri hálfleik komu Eyjamenn illa inn í seinni hálfleikinn og fyrstu 15 mínútur hálfleiksins var eins og þeir væru að bíða eftir jöfnunarmarki. Sóknarlega sköpuðu þeir ekki mikið eftir hlé heldur.

„Kannski þar sem þeir voru svo slakir í fyrri hálfleik hafi komið einhver hugsun hjá okkur að það yrði bara eins. Þetta hefur verið þannig síðan ég kom að við eigum fína hálfleiki en erum svo ekki með í 45 mínútur.“

„Við töluðum um í hálfleik að gera það sama og í þeim fyrri. Leyfa þeim að koma upp með boltann, þeir eru ekki fljótir til baka en ég veit ekki hvað gerðist. Þetta er bara eins og það er, það verður kraftaverk ef við höldum okkur í deildinni núna. Fyrir mér var þetta að duga eða drepast í dag.“

„Við erum með bakið upp við vegg og verðum að taka einn leik í einu og reyna að ná í einhver stig. Ef við töpum fyrir liðum eins og þessu þá erum við í miklum vandræðum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×