Rannveig Rist forstjóri álversins í Straumsvík upplýsti starfsmenn um að rekstur kerskála þrjú hefði verið stöðvaður á mánudagsmorgun á Facebooksíðu starfsfólks og í morgun var haldinn upplýsingafundur með starfsmönnum. Ástæðan fyrir lokuninni sú að afar óvenjulegur ljósbogi kom upp í einu af 160 kerjum skálans vegna þess að annað súral var notað en venjulega vegna skorts á heimsmörkuðum.
Rannveig sagði erfitt að spá fyrir um hvenær kveikt yrði á skálanum að nýju nú væri áherslan lögð á að halda starfseminni í jafnvægi í kerskálum eitt og tvö. Það hafi tekið tíu vikur síðast þegar skálinn var stöðvaður árið 2006 en þá hafi aðsstæður verið aðrar. Síðast var milljarða tjón en erfitt sé að meta tjónið nú.

„Alltaf þegar eitthvað fer að koma svona fyrir í fyrirtækjum sem eru í söluferli þá er líklegt að það auki ekki áhugann á þeim. Hins vegar ef það tekur skjótan tíma að laga þetta þá er það til marks um það að þarna sé afar hæft starfsfólk sem gæti svo aukið áhugann. Fyrirtækið verður fyrir miklu tekjutapi meðan að skálinn er lokaður en þarna fer fram um fjórðungur framleiðslunnar þannig að það felur líka í sér mikinn þrýsting, “ segir Ketill.
Álverið hefur kaupskyldu á hluta af rafmagni Landsvirkjunar
Þá segir Ketill að Landsvirkjun fái um fjórðung af tekjum sínum vegna sölu á rafmagni til álversins. Þar gæti því líka orðið tekjutap. Leynd hvílir á raforkusamningnum en ákveðin kaupskylda ríkir að sögn Rannveigar Rist forstjóra álversins.„Við erum með kaupskyldu á ákveðnum hluta og förum bara eftir þeim samningum sem eru í gildi,“ segir Rannveig.
Ketill segir að Landsvirkjun fái um einn milljarð á mánuði vegna sölu rafmagns til álversins og geti því orðið fyrir umtalsverðu tekjutapi dragist að kveikja á skála þrjú.
„Ef að samningarnir eru þannig að landsvirkjun fái ekki tekjurnar meðan framleiðslan liggur niðri þá getur það þýtt umtalsvert tekjutap fyrir Landsvirkjun,“ segir Ketill.
Engar upplýsingar fengust frá Landsvirkjun vegna málsins þar sem allir stjórnendur eru í sumarfríi.