Reynir Guðmundsson, fékk hjartabilun í byrjun júní og þarf að fara í hjartaaðgerð. Hann liggur á hjarta- og lungnadeild Landspítalans og hefur aðgerðinni ítrekað verið frestað þar sem gjörgæslan getur ekki tekið við honum að aðgerð lokinni vegna skorts á rúmum.
„Ég er búin að bíða í 39 daga og það er búið að fresta henni þrisvar sinnum og það er ekki viðeigandi ástand.“ Biðin hafi haft mikil áhrif á andlega heilsu hans og fjölskyldunnar.
„Þetta er erfitt fyrir fjölskylduna, þetta er erfitt fyrir hann og þetta er bara ömurlegt.“
„Það er náttúrulega ekkert boðlegt að bíða í fjörutíu daga eftir aðgerð á spítala, segir Sigríður Lárusdóttir, kona Reynis.
Reynir hefur sent alþingismönnum bréf vegna málsins þar sem hann hefur óskað eftir því að farið sé yfir stöðuna sem uppi er á gjörgæsludeildinni. Yfirlæknir tekur í sama streng.
„Þetta er bara glatað, óviðunandi ástand sem við búum við akkúrat núna. Okkar sjúklingar þurfa gjörgæslurými eftir opnar hjartaskurðaðgerðir í einn til tvo daga og þetta eru þá kannski einu gjörgæslusjúklingarnir sem hægt er að stýra hérna inn í þessi rými þannig að þeir sitja á hakanum fyrir aðeins veikari sjúklingum,“ segir Gunnar Mýrdal, yfirlæknir á hjarta- og lungnadeild Landspítalans.
Aðgerðirnar skipti umrædda sjúklingana þó gríðarlega miklu máli. Aðgerðirnar séu venjulega framkvæmdar innan nokkurra daga en biðin sé nú um 25 - 30 dagar. Fólkið sé það veikt að það geti ekki beðið heima.
Þá velta hjónin fyrir sér kostnaði samfélagsins af því að hafa fólk sem gæti verið í vinnu í biðstöðu.
„Ég hef ekkert farið í vinnu heldur. Þannig að þetta kostað samfélagið. það eru fleiri og fleiri manns sem liggja bara hér og geta ekki annað, segir Sigríður.