Íslenski boltinn

Segir árangurinn í Evrópukeppnum áfellisdóm yfir Pepsi Max-deild karla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valur tapaði fyrir Maribor, 5-0 samanlagt, í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Valur tapaði fyrir Maribor, 5-0 samanlagt, í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. vísir/bára
Íslensku liðin riðu ekki feitum hesti frá viðureignum sínum í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni. Þorkell Máni Pétursson segir að árangur íslensku liðanna segi meira en mörg orð um styrkleika Pepsi Max-deildar karla.

Stjarnan fór áfram gegn Levadia Tallin en Valur, KR og Breiðablik töpuðu öll sínum einvígum.

„Stjarnan fékk kannski lakasta andstæðinginn en það er alltaf snúið að fara í Evrópuleiki. Stjarnan hefði átt að klára einvígið í fyrri leiknum sem var vel upp settur. Stjarnan fór verðskuldað áfram,“ sagði Máni í Pepsi Max-mörkunum í gær.

Hörður Magnússon sagði að frammistaða KR og Breiðabliks hafi nánast verið háðuleg. KR tapaði fyrir Molde, 7-1 samanlagt, og Breiðablik féll úr leik fyrir Vaduz frá Liechtenstein, 2-1 samanlagt. Vaduz leikur í svissnesku B-deildinni.

„Menn tala um að þetta sé besta lið Molde í fleiri ár en 7-1 tap er full mikið af því góða fyrir norskum fótbolta, með allri virðingu fyrir honum. Þetta var hræðileg útreið,“ sagði Máni.

„Blikarnir töpuðu fyrir annarrar deildarliði í Sviss sem er með töluvert betri leikmenn. Þjálfarateymi Breiðabliks gerði mistök með því að sækja ekki töluvert meira í leiknum í Kópavogi. Þeir fengu dauðafæri til að skora í seinni leiknum en það gekk ekki. Leikplanið var ekki gott í Kópavoginum. Blikarnir áttu að fara áfram og fyrir mér eru það mestu vonbrigðin,“ bætti Máni við.

Hann segir augljóst að hraðinn í Pepsi Max-deildinni sé ekki nógu mikill og það komi bersýnilega í ljós þegar íslensku liðin máta sig við erlend lið.

„Það er ljóst að það er ekki nógu gott tempó í þessari deild. Það er hlýtur að vera,“ sagði Máni. „Það er hrikalega slæmt hvernig þetta lítur út fyrir okkur. Við getum ekkert logið öðru að okkur. Þetta er áfellisdómur, að einhverju leyti, yfir deildinni,“ sagði Máni að lokum.

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max-mörkin: Slakur árangur íslensku liðanna í Evrópukeppnum
 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×