Íslenski boltinn

„Blóðtaka fyrir Fylki að missa Kolbein“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolbeinn skoraði í sigri Fylkis á ÍBV.
Kolbeinn skoraði í sigri Fylkis á ÍBV. vísir/vilhelm
Kolbeinn Birgir Finnsson leikur væntanlega sinn síðasta leik fyrir Fylki gegn KR á sunnudaginn. Hann er á láni hjá Fylki frá Brentford og snýr aftur til enska B-deildarliðsins eftir leikinn gegn KR.

Kolbeinn hefur verið vaxandi í sumar og lék sérstaklega vel í 3-0 sigri Fylkis á ÍBV um helgina og skoraði fyrsta mark Árbæinga.

„Fylkismenn leggja væntanlega allt í sölurnar til að halda honum lengur því hann hefur sprungið út. Hann byrjaði rólega en var frábær í þessum leik. Þrátt fyrir að Eyjaliðið hafi verið slakt sýndi hann hversu mikil gæði hann er með,“ sagði Hallbera Gísladóttir í Pepsi Max-mörkunum í gær.

Kolbeinn er fjölhæfur og sá eiginleiki hefur nýst Fylkisliðinu afar vel í sumar.

„Hann er með mikið sjálfstraust og getur í raun spilað í hvaða stöðu sem hann er settur í,“ sagði Hallbera.

Þrátt fyrir að Fylkismenn hafi vitað að þeir gætu ekki notið krafta Kolbeins út tímabilið segir Hallbera að það setji strik í reikning þeirra að missa hann.

„Þetta er ekki beint áfall fyrir Fylki og þeir njóta hans á meðan þeir geta. En vissulega verður þetta mikil blóðtaka og það verður erfitt að fylla skarðið sem hann skilur eftir sig,“ bætti Hallbera við.

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max-mörkin: Fá að njóta Kolbeins í einum leik til viðbótar







Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×