Íslenski boltinn

Gunnar: Leið á löngum köflum eins og boxara sem væri verið að lúskra á hægri vinstri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnar í baráttunni.
Gunnar í baráttunni. vísir/daníel
„Mér leið á löngum köflum í seinni hálfleik eins og boxari sem væri verið að lúskra á hægri vinstri og væri kominn með bakið upp við netið. Þetta var klárlega unnið stig þegar uppi var staðið en það er rosalega erfitt að spila við þá,“ sagði Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindavíkur um sín fyrstu viðbrögð eftir markalaust jafntefli Breiðabliks og Grindavíkur á Kópavogsvelli í kvöld.

Gunnar kvaðst nokkuð sáttur með niðurstöðu kvöldsins:

„Við erum að berjast fyrir lífi okkar í deildinni svo hvert stig er rosalega dýrmætt þannig að heild yfir getum við verið nokkuð sáttir þar sem þeir fengu klárlega betri færi en við í kvöld.“

Gunnar var spurður aðeins út í þann langa tíma sem hefur liðið án þess að Grindavík hefur unnið knattspyrnuleik og hvort það væri farið að setjast á leikmenn liðsins:

„Það er núna tveir mánuðir og tveir dagar, þetta er bara eins og hjá ölkunum. En ég veit ekki hvort það sitji eitthvað í okkur. Við erum rosalega öruggir varnarlega en erum í smá brasi með að skapa okkur færi og mögulega afturför í dag en hrós til Blikanna, það er mjög erfitt að spila á móti þeim hérna. Þú skapar fá færi og verður að nýta þau færi sem þú færð.“

„Við erum með bakið upp við vegg og erum að berjast fyrir lífi okkar. Það er langt síðan við unnum en það er líka þokkalega langt síðan við höfum tapað. Það er erfitt að leggja okkur af velli og það verður að vera okkar aðalsmerki,“ sagði Gunnar að lokum þegar hann var spurður út í framhaldið en Grindavík er aðeins einu stigi frá fallsæti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×