Íslenski boltinn

Þór í annað sæti eftir dramatík

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sveinn Elías Jónsson, einn reynslumesti leikmaður Þórs, lagði upp sigurmarkið
Sveinn Elías Jónsson, einn reynslumesti leikmaður Þórs, lagði upp sigurmarkið vísir/vilhelm
Þór tók annað sætið í Inkassodeild karla af Gróttu með dramatískum sigri á Aftureldingu í Mosfellsbæ. Leiknir skellti Magna fyrir norðan.

Dino Gavric var hetja Þórs gegn nýliðunum, hann skoraði sigurmark Þórsara á síðustu mínútum leiks Aftureldingar og Þórs á Varmárvelli. Hann skoraði markið með skalla eftir aukaspyrnu Sveins Elíasar Jónssonar.

Áður hafði Bjarki Þór Viðarsson komið Þór yfir undir lok fyrri hálfleiks en Andri Freyr Jónasson jafnaði fyrir heimamenn á 71. mínútu. Leiknum lauk með 2-1 sigri Þórs.

Á Grenivík tók botnlið Magna á móti Leikni. Gestirnir úr Breiðholtinu komust yfir á 29. mínútu með marki frá Daníel Finns Matthíassyni.

Leiknir var með nokkra yfirburði í fyrri hálfleik en Magnamenn komu sterkir inn í þann síðari. Krafturinn skilaði sér hins vegar ekki í marki, í staðinn tvöfaldaði Vuk Oskar Dimitrijevic forystu Leiknis á 72. mínútu. Sveinn Óli Birgisson varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark og tryggja Leikni þar með 3-0 sigur.

Þór er nú kominn með 26 stig og fer upp fyrir Gróttu í annað sæti Inkassodeildarinnar. Þórsarar eru þá þremur stigum á eftir toppliði Fjölnis. Leiknir er í nokkuð lygnum sjó um miðja deild, fer upp um sæti í það fimmta með 21 stig.

Afturelding og Magni sitja áfram í fallsætunum með 10 stig líkt og Njarðvík sem er með betri markatölu.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×