Skoðun

Lífskjaraflótti

Óttar Guðmundsson skrifar
Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár eru 47.278 Íslendingar búsettir erlendis. Þetta er um 15% þjóðarinnar sem er gríðarlega hátt hlutfall fyrir svo fámenna þjóð. Fjölmargir til viðbótar dveljast erlendis yfir vetrartímann. Flestir eru svokallaðir lífskjaraflóttamenn sem leita til útlanda til að bæta kjör sín og lífsafkomu.

Fjölmiðlar hafa dálæti á þessum brottfluttu Íslendingum. Reglulega birtast viðtöl við öryrkja og ellilífeyrisþega og aðra sem segjast lifa ágætu lífi erlendis en vart skrimta af sama fé á Íslandi. Þetta fólk fer hörðum orðum um vaxtastig, verðlag og efnahagslegan óstöðugleika á Íslandi.

Það vekur athygli að langflestir lífskjaraflóttamenn flytjast til landa ESB og Noregs þar sem velsæld virðist mest í heiminum. Á sama tíma er rekinn gegndarlaus áróður gegn ESB. Margir málsmetandi stjórnmálamenn finna ESB allt til foráttu og vilja slíta öllu Evrópusamstarfi.

Það hlýtur að vera markmið allra að lífskjör á Íslandi séu sambærileg við það besta í Evrópu. Þegar gamlir taglhnýtingar Sovétríkjanna fengu sjálfstæði eftir lok kalda stríðsins 1990 flýttu menn sér að ganga í ESB til að bæta lífskjör almennings og koma í veg fyrir fólksflótta. Íslenskir stjórnmálamenn virðast hins vegar einir telja að lífskjörin muni batna ef þeir segja skilið við evrópska efnahagssvæðið.

Í gamla Austur-Þýskalandi var talað um að fólk kysi með fótunum. Lýsti yfir stuðningi við stjórnvöld en flýði svo til vesturs þegar tækifæri gæfist. Sama er uppi á teningnum hérlendis. Íslenskir stjórnmálamenn eru kokhraustir og bölva ESB af öllum kröftum meðan þjóðin kýs með fótunum og velur að búa í löndum ESB um lengri og skemmri tíma.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×