Íslenski boltinn

Getur komið KR í bikarúrslit í fyrsta leiknum við stjórnvölinn hjá liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhannes Karl ásamt konu sinni, markvarðahrellinum Hörpu Þorsteinsdóttur, og sonum þeirra.
Jóhannes Karl ásamt konu sinni, markvarðahrellinum Hörpu Þorsteinsdóttur, og sonum þeirra. VÍSIR/BJÖRN G. SIGURÐSSON
Jóhannes Karl Sigursteinsson, nýr þjálfari KR, stýrir liðinu í fyrsta sinn þegar það tekur á móti Þór/KA í seinni undanúrslitaleiknum í Mjólkurbikar kvenna í dag. Selfoss vann Fylki, 0-1, í fyrri undanúrslitaleiknum í gær.

Jóhannes var ráðinn þjálfari KR á miðvikudaginn. Hann tekur við liðinu af Bojönu Besic sem sagði starfi sínu lausu fyrr í þessum mánuði. Í millitíðinni stýrði Ragna Lóa Stefánsdóttir KR í tveimur leikjum í Pepsi Max-deildinni sem báðir unnust.

KR hefur tíu sinnum komist í bikarúrslit, síðast fyrir átta árum. KR-ingar hafa fjórum sinnum orðið bikarmeistarar; 1999, 2002, 2007 og 2008.

Þór/KA hefur aðeins einu sinni komist í bikarúrslit. Það var árið 2013 þegar liðið tapaði fyrir Breiðabliki, 2-1.

Tæpur mánuður er síðan KR og Þór/KA mættust í Pepsi Max-deildinni. Þann 23. júní gerðu þau 2-2 jafntefli á Þórsvellinum. Karen María Sigurgeirsdóttir tryggði Akureyringum stig með því að jafna á 88. mínútu.

Leikur KR og Þórs/KA hefst klukkan 14:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þá verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×