Erlent

Vilja halda unga fólkinu með því að fella niður tekjuskatt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Um 1,7 milljónir Pólverja hafa leitað að tækifærum annars staðar en í Póllandi frá árinu 2004.
Um 1,7 milljónir Pólverja hafa leitað að tækifærum annars staðar en í Póllandi frá árinu 2004. Getty/Nur Photo
Ný lög sem taka gildi í Póllandi í vikunni munu gera það að verkum að um tvær milljónir ungs fólks í Póllandi mun ekki þurfa að greiða tekjuskatt. Forsætisráðherra Póllands segir að með lögunum sé hægt að koma í veg fyrir að ungt fólk flytji á brott frá Póllandi í von um hærri tekjur og betra líf.

Lögin fela það í sér að allir þeir sem eru 26 ára og yngri og með lægri árstekjur en 85.528 slot, um 2,7 milljónir íslenskra króna verða undanþegin tekjuskatti frá og með 1. ágúst næstkomandi. Tekjuskattsprósentan í Póllandi er 18 prósent. Undanþáguviðmiðið þykir nokkuð ríflegt, sé litið til þess að meðallaun í Póllandi eru um 60 þúsund slot á ári, um 1,9 milljónir króna.

Í frétt CNN segir að með hinum nýju lögum vilji ríkisstjórnin í Póllandi stemma stigu við brottflutning Pólverja til annarra Evrópulanda. Frá því að Pólland gekk í Evrópusambandið árið 2004 hafa um 1,7 milljónir Pólverja haldið á önnur mið. Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra landsins, segir að snúa þurfi þessari þróun við og hin nýju lög séu tilraun til þess.

Í samtali við CNN segir Barbara Jancewicz, félagsfræðingur við Háskólann í Varsjá, að á undanförnum þremur til fjórum árum hafi orðið vart við skort á vinnuafli í Póllandi og því sé mikilvægt að laða þá sem yfirgefið hafa Pólland aftur heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×