Íslenski boltinn

Breiðablik samþykkir tilboð frá Lommel í Kolbein

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kolbeinn Þórðarson á leið til Belgíu
Kolbeinn Þórðarson á leið til Belgíu vísir/daníel þór
Breiðablik hefur samþykkt kauptilboð belgíska B-deildarliðsins Lommel í miðjumanninn unga og efnilega Kolbein Þórðarson.

Frá þessu er greint á heimasíðu Kópavogsliðsins.

Þar segir jafnframt að Kolbeinn sé á leið til Belgíu í viðræður við Belgana en þjálfari Lommel er Stefán Gíslason, fyrrum þjálfari 2.flokks Breiðabliks. Hann tók nýverið við stjórnartaumunum hjá Lommel eftir að hafa stýrt Leikni í Inkasso deild karla í sumar.

Jonathan Hendrickx fór frá Breiðablik til Lommel á dögunum og nú er allt útlit fyrir að Kolbeinn muni gera það sama á allra næstu dögum.

Kolbeinn kom inn á sem varamaður þegar Breiðablik tapaði 3-2 fyrir Víkingi í Pepsi Max deildinni í gær en þessi 19 ára gamli leikmaður hefur skorað 4 mörk í 15 leikjum í sumar.

Ef af félagaskiptunum verður, verður Kolbeinn þriðji leikmaðurinn sem fer frá Breiðabliki í atvinnumennskuna í júlímánuði því Blikar seldu einnig Aron Bjarnason til ungverska úrvalsdeildarliðsins Újpest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×