Íslenski boltinn

Kristján Flóki eftir fyrsta leikinn fyrir KR: „Hafði alltaf á tilfinningunni að markið myndi koma“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján Flóki fer vel af stað með KR.
Kristján Flóki fer vel af stað með KR. mynd/kr
„Ég er mjög sáttur. Þetta var góður dagur,“ sagði Kristján Flóki Finnbogason eftir fyrsta leik sinn í búningi KR.

Þeir svarthvítu unnu þá 5-2 sigur á Grindvíkingum og náðu 13 stiga forskoti á toppi Pepsi Max-deildar karla. Kristján Flóki skoraði eitt mark í kvöld og lagði annað upp.

Hann segir að það hafi verið þægilegt að koma inn í KR-liðið.

„Þetta er mjög flottur hópur og allir tóku vel á móti mér. Þetta hefur verið mjög auðvelt, allt frá fyrstu æfingu,“ sagði Kristján Flóki.

Hafnfirðingurinn var mjög líflegur í leiknum en markið lét bíða eftir sér. Það kom þó loks á 89. mínútu.

„Ég var fyrst og fremst að hugsa um að vinna leikinn. En ég hafði alltaf á tilfinningunni að markið myndi koma. Og það kom á endanum,“ sagði Kristján Flóki.

En hvaða skilaboð fékk hann frá Rúnari Kristinssyni, þjálfara KR, fyrir leikinn?

„Að gera það sem ég geri, vera vinnusamur og hjálpa liðinu,“ sagði Kristján Flóki að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×