Erlent

25 höfuðkúpum Sama verður skilað

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Samar máttu lengi þola mismunun í Svíþjóð.
Samar máttu lengi þola mismunun í Svíþjóð. Nordicphotos/Getty
Höfuðkúpum 25 Sama verður skilað til Norður-Svíþjóðar, þar sem þær voru grafnar upp fyrir um 70 árum. Kúpurnar voru rannsakaðar á grundvelli kynþáttahyggju.

Höfuðkúpurnar voru grafnar upp í bænum Lycksele á sjötta áratugnum og fluttar á Sögusafnið í Stokkhólmi. Þar voru þær rannsakaðar en hafa síðan legið óhreyfðar í geymslu. Þann 9. ágúst verða þær fluttar norður og grafnar að nýju með viðhöfn.

Framan af 20. öldinni máttu Samar í Svíþjóð þola mismunun og aðskilnað, til dæmis í skólakerfinu. Þá stundaði sænska kirkjan ágengt trúboð í landi Sama. Mikil vitundarvakning hefur orðið í málefnum Sama síðan. Svíþjóðardemókratar hafa þó barist gegn réttindum þjóðarbrotsins.

Mannfræðingar á 19. og 20. öld grófu upp höfuðkúpur og gerðu rannsóknir á þeim sem í dag myndu teljast ansi vafasamar en reynt var að leggja mat á gáfnafar Sama út frá stærð og lögun kúpunnar. Í Uppsölum var rekin kynþáttarannsóknarstofa fram á sjötta áratuginn.

Samíska þingið í Svíþjóð hefur barist fyrir því í tólf ár að höfuðkúpunum sé skilað svo að hægt verði að grafa þær á ný. Er þetta því fyrsta skrefið í átt til sátta en á tíu önnur sænsk söfn eiga samískar höfuðkúpur í safnkosti sínum. Í framhaldinu mun Þjóðminjaráð Svíþjóðar skila skýrslu um hvernig tekið skuli á líkamsleifum manna í opinberum söfnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×