Innlent

Telur einfalt að hliðra til vegna steingervinga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ásgeir Margeirsson er forstjóri HS Orku og stjórnarformaður Vesturverks, sem áformar Hvalárvirkjun.
Ásgeir Margeirsson er forstjóri HS Orku og stjórnarformaður Vesturverks, sem áformar Hvalárvirkjun. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Náttúrufræðistofnun hyggst eftir helgi rannsaka fullyrðingar andstæðinga Hvalárvirkjunar um að friðaðir steingervingar séu á framkvæmdasvæði virkjunarinnar. Stjórnarformaður Vesturverks segir einfalt að hliðra til framkvæmdum þannig að þær snerti ekki slíkar minjar. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2: 

Þótt andstæðingar Hvalárvirkjunar hafi tapað síðustu hreppsnefndarkosningum í Árneshreppi, - fengu engan fulltrúa meðan stuðningsmenn fengu fimm, - láta þeir einskis ófreistað til að hindra að vilji meirihlutans um virkjun nái fram að ganga. Nýjasta útspilið er bréf til Náttúrufræðistofnunar um að fundist hafi friðaðir steingervingar í jarðlögum, á svæði þar sem búið er að heimila framkvæmdir.

Hér sést fyrirhugað vegstæði upp hlíðina og aðkomuhús Hvalárvirkjunar.Grafík/Vesturverk.
Fyrirhugað stöðvarhús verður neðanjarðar en helsta sýnilega mannvirkið á því svæði verður vegur sem leggja á upp hlíðina, og einmitt þar í vegstæðinu segja andstæðingar að steingervingarnir séu. Þar sé hætta á óafturkræfu raski. 

En gæti þetta útspil stöðvað verkið? 

„Við höldum ekki,“ svarar Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Vesturverks. 

„Við virðum þessi sjónarmið og þessar minjar, sem um er að ræða. Nú er búið að rannsaka málið nokkuð ítarlega á fyrri stigum, eftir öllum þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem fyrir liggja. Svo kemur þetta upp á borðið núna. 

Það hafa verið fréttir af því að þetta verður rannsakað af Náttúrufræðistofnun, vonandi í næstu viku. Eins og við metum málið þá er það ekki þess eðlis að það trufli verulega eða stöðvi. Það er mjög einfalt að haga framkvæmdum og vegarlagningu þannig að það snerti ekki slíkar minjar,“ segir Ásgeir.

Til vinstri má sjá hvar áætlað er að brú komi yfir Hvalá. Þaðan á að leggja veginn upp hlíðina.Grafík/Vesturverk.
Sýnilegustu mannvirki Hvalárvirkjunar verða stíflur og miðlunarlón á Ófeigsfjarðarheiði en andstæðingar telja þó mesta skaðann felast í því að vatnsrennsli á fossum og fossaröðum minnkar verulega. 

-En mun ykkur takast að koma þessari framkvæmd almennilega í gang? Verða ekki bara svo miklar hindranir og mótmæli að þið neyðist til að hverfa frá? 

„Það held ég ekki. Við höfum leyfi til þess að gera þetta og höfum heimildir til þess. Og það sem við erum raunverulega að ræða um og þjarka um eru skoðanir. En hvorki við, né þeir sem setja þær fram, eru þeir sem skera úr um hvað má gera. Það eru yfirvöld sem gera það,“ svarar Ásgeir Margeirsson. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Segir kærum ætlað að tefja framkvæmdir

Skiptar skoðanir eru um Hvalárvirkjun en landeigendur hafa meðal annars kært framkvæmdarleyfið. Upplýsingafulltrúi Vesturverks segir kærurnar til þess fallnar að tefja framkvæmdir en hún lítur á virkjunina mikla búbót fyrir byggð á Vestfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×