Íslenski boltinn

Birnir: Finnst ég hafa átt að fá meiri spilatíma hjá Val

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sóknarmaðurinn Birnir Snær Ingason leikur væntanlega sinn fyrsta leik fyrir HK gegn ÍBV í Pepsi Max deildinni í fótbolta á morgun.

Birnir Snær gekk í raðir Kópavogsliðsins frá Val í vikunni en í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Birnir að hann skuldaði HK.

„Mér finnst ég hafa átt að fá meiri spilatíma hjá Val sem ég fékk ekki. Ég ætla að gera mitt besta og vonandi gengur vel,“ sagði Birnir við Hörð Magnússon.

„Ég sá fram á lítinn spilatíma hjá Val og bað um að fá að fara á láni. Í byrjun átti þetta að vera lán en endaði í kaupi og þeir voru tilbúnir í það og ég líka.“

„Maður lærði helling þarna og maður getur ekki komist mikið hærra en Val á Íslandi. Mistök eða ekki, ég veit það ekk. Kannski er það þannig þegar maður horfir á það núna en á þeim tíma sem ég þurfti að velja fannst mér þetta rétt.“

Eina mark Birnis fyrir Val kom í sigri á HK en markið kom í uppbótartíma. Skuldar Birnir HK eftir það mark?

„Ég skulda þeim eitthvað. Ég kann vel við mig inn í höllunum og HK er mjög svipað umhverfi og Fjölnir. Ég þekki nokkra stráka þarna og hef heyrt góða hluti um þetta. Ég er spenntur fyrir þessu.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir

Birnir Snær til HK

Nýliðarnir í efri byggðum Kópavogi eru búnir að kaupa Birni Snæ Ingason frá Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×