Enski boltinn

Solskjær segir að Pogba og Rashford ákveði sjálfir hver taki víti hverju sinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pogba og Solskjær takast í hendur eftir leikinn á Molineux í kvöld.
Pogba og Solskjær takast í hendur eftir leikinn á Molineux í kvöld. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Paul Pogba og Marcus Rashford séu vítaskyttur liðsins og þeir ráði því hvor tekur víti hverju sinni.

Pogba klúðraði víti þegar United gerði 1-1 jafntefli við Wolves á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Athygli vakti að Pogba tók vítið því Rashford skoraði af vítapunktinum í 4-0 sigri United á Chelsea í síðustu umferð.

Solskjær var spurður í vítamálin í viðtali á Sky Sports eftir leikinn í kvöld.

„Þeir [Pogba og Rashford] eru vítaskyttur okkar og það er undir þeim komið hver tekur víti hverju sinni,“ sagði Solskjær. Í kjölfarið var hann spurður af hverju hann væri ekki með eina aðal vítaskyttu.

„Stundum finnst leikmönnum þeir vera með nógu mikið sjálfstraust til að skora. Pogba hefur skorað úr svo mörgum vítum fyrir okkur en í dag varði [Rui] Patrício vel,“ sagði Solskjær og bauð því næst fréttamanninum að skoða PowerPoint-glærurnar sínar.

Solskjær sagði jafnframt að klúður kvöldsins breytti engu um vítafyrirkomulagið hjá United.

„Þeir hafa áður sýnt mikið sjálfstraust og öryggi og í síðustu viku skoraði Rashford úr víti. Hann hefði eflaust viljað taka vítið í dag en Pogba var fullur sjálfstrausts og ég er hrifinn af þannig leikmönnum.“



Frá byrjun síðasta tímabils hefur Pogba klúðrað fjórum vítum fyrir United í ensku úrvalsdeildinni. Rashford hefur hins vegar skorað úr öllum sínum vítum í búningi United, þótt þau séu ekki mörg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×