Handbolti

Heima­síða EM í hand­bolta spáir Ís­landi á verðlaunapallinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í handbolta nær vonandi að fagna mörgum sigrum á EM sem hefst á föstudaginn kemur.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta nær vonandi að fagna mörgum sigrum á EM sem hefst á föstudaginn kemur. Getty/Uros Hocevar

Það styttist í fyrsta leik á Evrópumóti karla í handbolta og handboltasérfræðingar víðs vegar að keppast við að spá fyrir um gang mála á mótinu. Á heimasíðu Evrópska handboltasambandsins má finna styrkleikaröðina fyrir mótið og þar er íslenska landsliðið mjög ofarlega á blaði.

„Lokaundirbúningur er í fullum gangi og þátttökuþjóðirnar 24 á EM karla 2026 spila síðustu æfingaleikina áður en mótið hefst 15. janúar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Að teknu tilliti til úrslita, tilnefninga og væntinga er hér birtur huglægur styrkleikalisti – með skýrri vísbendingu um sigurvegarana,“ segir á síðunni áður en farið er í styrkleikaröðun tíu bestu landsliða mótsins.

Bara Danir og Frakkar ofar

Danir eru í fyrsta sæti og mótherjar Íslands um helgina, Frakkar, eru í öðru sætinu. Það þarf ekki að koma á óvart að heims- og Ólympíumeistarar Dana séu settir í fyrsta sæti eða þá að ríkjandi Evrópumeistarar Frakka séu í öðru sætinu. Tvö mjög öflug lið með frábæra vörn og mikla breidd.

Íslenska landsliðið er hins vegar á verðlaunapallinum ef marka má þessa röðun því EHF-síðan setur strákana okkar í þriðja sæti styrkleikalistans og á undan Svíum og Þjóðverjum sem koma næstir.

„Fyrir sextán árum síðan vann Ísland sín fyrstu og hingað til einu verðlaun á EM í handbolta – brons í Austurríki. Síðan þá hafa „Víkingarnir“ stöðugt verið meðal þeirra liða sem vert er að fylgjast með,“ segir á síðunni.

Heilt íslenska landsliðið ýtir upp væntingunum en það hefur vantað lykilmenn í liðið undanfarin ár eins og sést á því að Ómar Ingi Magnússon missti af mótinu fyrir ári síðan. 

Nú er einn markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar klár í slaginn og kominn auk þess með fyrirliðabandið í liðinu.

Allar stórstjörnurnar eru heilar heilsu

„Nú, þegar allar stórstjörnurnar eru heilar heilsu er möguleikinn á að vinna fleiri verðlaun meiri en nokkru sinni fyrr. Með þrjár stjörnur Magdeburg, Gísla Kristjánsson, Ómar Inga Magnússon og Elvar Örn Jónsson, í lykilhlutverkum, sterkt markvarðapar með Viktor Hallgrímsson og Björgvin Pál Gústavsson, og margar fleiri stjörnur sem leika lykilhlutverk í efstu deildum hefur Ísland sannað styrk sinn í undankeppninni og á auðveldari leið í undanúrslitin þar sem liðið leikur milliriðil sinn í Malmö,“ segir á síðunni.

Einstaklingshæfileikar

Lokaniðurstaðan er að það eru tveir lykilmenn besta liðs Þýskalands og ríkjandi Meistaradeildarmeistara í Magdeburg sem eiga að leiða íslenska landsliðið upp á verðlaunapall.

„Það eru aðallega einstaklingshæfileikar [Gísla] Kristjánssonar og [Ómars Inga] Magnússonar sem eiga að leiða þá áfram á lokamótið,“ segir á EHF-síðunni en það má sjá þessa samantekt hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×