Gul veðurviðvörun á suðausturhluta landsins í dag gerir það að verkum að fresta þarf árlegri flugeldasýningu Björgunarfélags Hornafjarðar á Jökulsárlóni. Viðburðurinn hefur jafnan verið vel sóttur en ákvörðun um að fresta viðburðinum var tekin í gær.
Gert er ráð fyrir vindhviðum sem ná allt að 25-30 metrum á sekúndu annað slagið á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og sunnanverðu Snæfellsnesi í dag. Í Suðursveit hvessir og getur gert allt að 35 metra á sekúndu þvert á vegi þar, einkum frá miðjum degi og fram á nótt, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.
Jens Olsen, formaður Björgunarfélags Hornafjarðar, segir að spáð sé um og yfir tuttugu metrum á sekúndu við Jökulsárlón í kvöld. Því hafi verið ógerlegt að fara með flugeldana út á lónið vegna ölduhæðar.
Hann segir fúlt að þurfa að fresta flugeldasýningunni til morguns og von hafi verið á um 2.500 gestum. Flugeldasýningin sé ein helsta fjáröflun björgunarfélagsins og jafnist á við flugeldasölu í kringum áramót.
„Það verður fullt af útlendingum eins og venjulega, öll hótel eru full. Það fækkar kannski eitthvað Íslendingum sem búa fjær,“ segir Jens um hvaða áhrif frestunin gæti haft á aðsóknina.
