Enski boltinn

Hetja Liverpool gæti misst af leik helgarinnar eftir árekstur við áhorfanda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adrian fagnar með bikarinn í Istanbul.
Adrian fagnar með bikarinn í Istanbul. Getty/Michael Regan
Markvörður Liverpool meiddist í fagnaðarlátunum í Istanbul í Tyrklandi á miðvikudagskvöldið. Jürgen Klopp óttast það að vera án hans í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Adrian var hetja Liverpool þegar liðið vann Chelsea í Ofurbikar Evrópu á miðvikudagskvöldið en hann varð síðasta vítið frá Chelsea í vítakeppninni.

Adrian er nýkominn til Liverpool og átti að vera varamarkvörður. Hann fékk hins vegar tækifærið þegar Allison meiddist í fyrsta leik á móti Norwich.

Adrian varði síðan markið á móti Chelsea í Istanbul þar sem Liverpool vann sinn annan Evróputitil á árinu.

Adrian tryggði Liverpool titilinn með því að verja síðasta víti Chelsea og í framhaldinu var honum vel fagnað á vellinum. Kannski of mikið ef marka má nýjustu fréttir úr herbúðum Liverpool.





Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði frá því á blaðamannafundi í dag að Adrian muni mögulega missa af leiknum á móti Southampton á morgun vegna meiðsla.

„Stuðningsmaður hoppaði yfir eitthvað, rann og lenti á ökklanum hans. Hann er bólginn en við verðum að bíða og sjá til,“ sagði Jürgen Klopp.

Það er hálfgert markvarðarhallæri hjá félaginu. Alisson er meiddur, Liverpool seldi Simon Mignolet til Belgíu og Loris Karius er á láni hjá Besiktas. Eftir standa þeir Andy Lonergan og Caoimhin Kelleher.

Hér fyrir neðan má sjá þessa „skriðtæklingu“ áhorfandans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×