Björgunarsveitarmenn og lögreglan á Suðurlandi munu hefja leit á ný í dag að belgíska ferðamanninum sem er talinn hafa fallið í Þingvallavatn á laugardag. Munu björgunarsveitarmenn hefja leit klukkan fimm í dag en ekkert hefur verið leitað að hinum 41 árs gamla Björn Debecker síðan í hádeginu á mánudag vegna mikils vinds.
Munu leitarmenn einbeita sér að suðurenda Þingvallavatns, þar sem Villingavatn er, og áætlað að leitað verði fram á tíunda tímann í kvöld.
Búist er við að björgunarsveitarmenn muni stunda yfirborðsköfun með snorku við leitina í dag og ef veður leyfir verður notast við dróna sem flogið verður yfir vatnið.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að sérsveitarmenn muni kafa í vatninu á morgun en það þarf að slökkva á Steingrímsstöð svo óhætt sé fyrir þá að kafa.
Í Steingrímsstöð er virkjað fall Efra-Sogs úr Þingvallavatni í Úlfljótsvatn.
Gengið er út frá því að Debecker hafi fallið útbyrðis þegar hann sigldi á kajak á vatninu um helgina. Debecker er tveggja barna faðir frá Leuven, menntaður verkfræðingur og mikill heimshornaflakkari. Hann hafi komið víða við á ferðalögum sínum um heiminn og m.a. tjaldað við jökulrætur í Alaska, skíðað í Ölpunum og kafað í Víetnam. Þá hafi hann einnig verið búsettur í Noregi á tímabili.
Debecker er jafnframt sagður hafa leitað upplýsinga hjá þjóðgarðsvörðum áður en hann týndist. Þá virðist sem hann hafi gist í tjaldi við norðanvert vatnið.
Slökkva þarf á Steingrímsstöð svo sérsveitarmenn geti athafnað sig við leit í Þingvallavatni

Tengdar fréttir

„Yfirgnæfandi líkur“ á að maðurinn hafi fallið í vatnið
Leit lögreglunnar að erlendum ferðamanni í og við Þingvallavatn hefur enn engan árangur borið.

Belgíski ferðamaðurinn sagður mikill heimshornaflakkari
Maðurinn sem talið er að hafi fallið í Þingvallavatn heitir Björn Debecker og er 41 árs.