Íslenski boltinn

HK hefur verið yfir í langflestar mínútur á móti toppliði KR í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnþór Ari Atlason kom HK í 1-0 á móti KR á 6. mínútu og HK-ingar létu forystun ekki af hendi eftir það.
Arnþór Ari Atlason kom HK í 1-0 á móti KR á 6. mínútu og HK-ingar létu forystun ekki af hendi eftir það. Vísir/Bára
HK-ingar unnu 4-1 stórsigur á toppliði KR í Kórnum í gær og urðu fyrsta íslenska liðið til að vinna KR í heila 87 daga.

KR tapaði á móti Grindavík 16. maí síðastliðinn en hafði síðan náð í 31 af 33 stigum í boði í leikjum sínum í Pepsi Max deildinni.

Liðunum í deildinni hefur ekki aðeins gengið illa að vinna KR í sumar heldur hafa flest þeirra ekki einu sinni náð að komast yfir í leikjum sínum við Vesturbæjarliðið.

HK varð þannig aðeins fjórða liðið til að komast yfir á móti KR í sumar en hin eru Grindavík, Valur og Stjarnan.

HK er aftur á móti það lið sem hefur verið langlengst yfir á móti KR í sumar og HK-ingar eru líka það lið sem hefur lengst tveimur og þremur mörkum yfir á móti Vesturbæjarliðinu.

HK-ingar komust yfir á sjöttu mínútu á móti KR í gær og héldu forystunni í þær 84 mínútur sem voru eftir af leiknum. Næstir eru Grindvíkingar sem voru yfir í 66 mínútur í sigurleik sínum á móti KR í maí.

HK hefur alls verið tveimur mörkum yfir á móti KR í 52 mínútur og ekkert annað lið hefur náð að vera þremur mörkum yfir á móti lærisveinum Rúnars Kristinssonar í sumar en það má sjá tölurnar betur hér fyrir neðan.

Lið sem hafa verið yfir á móti KR í Pepsi Max deild karla 2019:

HK 84 mínútur

Grindavík 66 mínútur

Valur 46 mínútur

Stjarnan 34 mínútur

Lið sem hafa verið tveimur mörkum yfir á móti KR í Pepsi Max deild karla 2019:

HK 52 mínútur

Grindavík 31 mínútur

Valur 8 mínútur

Lið sem hafa verið þremur mörkum yfir á móti KR í Pepsi Max deild karla 2019:

Hk 26 mínútur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×